11. KAFLI
Varðveittu heimilisfriðinn
1. Hvað getur valdið sundrungu á heimilum?
ÞAÐ er mikil gæfa að eiga fjölskyldu þar sem ríkir kærleikur, skilningur og friður. Vonandi er fjölskylda þín þannig. Því miður eru ótal fjölskyldur óhamingjusamar og sundraðar einhverra orsaka vegna. Hvað getur valdið því? Í þessum kafla er rætt um þrennt. Í sumum fjölskyldum eru ekki allir sömu trúar, í öðrum eiga börnin ekki sömu kynforeldra og stundum hefur lífsbaráttan eða löngun í meiri efnisleg gæði sundrandi áhrif. En aðstæður, sem valda sundrungu á einu heimili, hafa ekki endilega áhrif á önnur. Í hverju liggur munurinn?
2. Hvar leita sumir ráðlegginga um fjölskyldulífið en hvar er bestu leiðsögnina að fá?
2 Að hluta til liggur munurinn í afstöðu fólks. Ef maður leggur sig einlæglega fram um að skilja sjónarmið hinna í fjölskyldunni er líklegra að manni takist að varðveita einingu á heimilinu. Það skiptir líka máli hvar leitað er leiðsagnar. Margir fylgja ráðum vinnufélaga, nágranna, dálkahöfunda eða annarra manna. En sumir hafa kynnt sér hvað orð Guðs segir um málið og farið eftir því. Hvernig getur það hjálpað fjölskyldum að varðveita heimilisfriðinn? — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
EF EIGINMAÐURINN ER ANNARRAR TRÚAR
3. (a) Hvað segir Biblían um það að giftast einhverjum sem er annarrar trúar? (b) Hvaða meginreglur gilda þótt hjónin séu ekki sömu trúar?
3 Biblían varar eindregið við því að giftast einhverjum sem er annarrar trúar. (5. Mósebók 7:3, 4; 1. Korintubréf 7:39) En kannski kynntist þú sannleika Biblíunnar eftir að þú giftir þig en maðurinn þinn ekki. Hvað þá? Að sjálfsögðu er hjúskaparheitið enn í fullu gildi. (1. Korintubréf 7:10) Biblían leggur áherslu á að hjónabandið sé varanlegt og hvetur hjón til að leysa vandamál sín í stað þess að flýja þau. (Efesusbréfið 5:28-31; Títusarbréfið 2:4, 5) En hvað er til ráða ef maðurinn þinn er mjög andvígur því að þú stundir þá trú sem Biblían boðar? Kannski reynir hann að koma í veg fyrir að þú sækir safnaðarsamkomur eða segist ekki vilja að konan sín gangi í hús og tali um trúmál. Hvað geturðu þá gert?
4. Hvernig getur kona sett sig í spor eiginmannsins ef hann er ekki sömu trúar og hún?
4 Spyrðu sjálfa þig hvers vegna manninum þínum sé þannig innanbrjósts. (Orðskviðirnir 16:23) Það er eðlilegt að hann hafi áhyggjur af þér ef hann skilur ekki hvað þú ert að gera. Hann gæti líka verið undir þrýstingi frá ættingjum þar sem þú tekur ekki lengur þátt í vissum siðum og venjum sem þeim finnst mikilvægir. „Þegar ég var einn heima fannst mér ég yfirgefinn,“ sagði eiginmaður nokkur. Honum fannst trúin vera að gleypa konuna sína. Hann var hins vegar of stoltur til að viðurkenna að hann væri einmana. Þú þarft ef til vill að fullvissa manninn þinn um að þú elskir hann ekkert minna þótt þú elskir Jehóva. Gættu þess að gefa þér tíma til að vera með honum.
5. Hvaða jafnvægi þarf kona að finna ef eiginmaður hennar er annarrar trúar?
5 Til að taka viturlega á málum þarf að hafa annað í huga sem er enn mikilvægara. Orð Guðs hvetur eiginkonur: „Verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til.“ (Kólossubréfið 3:18) Biblían varar sem sagt við sjálfstæðisanda. Og orðin „eins og sómir þeim, er Drottni heyra til,“ gefa til kynna að eiginkona eigi ekki aðeins að vera undirgefin manninum heldur einnig Drottni. Þarna þarf að ríkja ákveðið jafnvægi.
6. Hvaða meginreglur ætti kristin eiginkona að hafa í huga?
6 Samkomusókn og boðun trúarinnar eru ómissandi þættir sannrar guðsdýrkunar sem kristinn maður má ekki vanrækja. (Rómverjabréfið 10:9, 10, 14; Hebreabréfið 10:24, 25) Hvað myndirðu þá gera ef einhver bannaði þér að fylgja ákveðnum fyrirmælum Guðs? Postular Jesú Krists sögðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Afstaða þeirra er okkur fyrirmynd sem fylgja má á mörgum sviðum lífsins. Elskarðu Jehóva nógu heitt til að veita honum þá hollustu sem honum ber? Og elskarðu og virðir eiginmann þinn nógu mikið til að reyna að láta ekki hollustu þína við Jehóva skaprauna honum? — Matteus 4:10; 1. Jóhannesarbréf 5:3.
7. Hvaða staðfestu verður kristin eiginkona að sýna?
7 Jesús benti á að þetta væri ekki alltaf hægt. Vegna andstöðu gegn sannri tilbeiðslu myndi sumum kristnum mönnum finnast fjölskyldan hafna sér, rétt eins og sverð hefði klofið fjölskylduna. (Matteus 10:34-36) Kona í Japan kynntist þessu af eigin raun. Eiginmaðurinn var henni andsnúinn í 11 ár. Hann fór mjög illa með hana og læsti hana oft úti. En hún gafst ekki upp. Vinir hennar í söfnuðinum hjálpuðu henni. Hún bað án afláts til Guðs og sótti mikinn styrk í 1. Pétursbréf 2:20. Hún var sannfærð um að ef hún væri staðföst myndi maðurinn hennar að lokum gerast þjónn Jehóva líkt og hún. Og það gerði hann.
8, 9. Hvað ætti kona að gera til að leggja ekki stein í götu eiginmannsins að óþörfu?
8 Það er margt sem þú getur gert til að hafa áhrif á afstöðu mannsins þíns. Ef hann er mótfallinn trú þinni skaltu ekki gefa honum ástæðu til að finna að þér á öðrum sviðum. Haltu heimilinu hreinu. Hugaðu vel að útliti þínu. Vertu óspör á að tjá honum ást þína og segja honum hve mikils þú metur hann. Styddu hann frekar en að gagnrýna. Sýndu að þú fylgir forystu hans fúslega. Svaraðu ekki í sömu mynt ef þér finnst hann hafa gert á hlut þinn. (1. Pétursbréf 2:21, 23) Mundu að hann er ekki fullkominn. Sýndu auðmýkt og vertu fyrri til að biðjast afsökunar ef upp kemur ágreiningur. — Efesusbréfið 4:26.
9 Láttu ekki samkomurnar verða til þess að maturinn sé ekki tilbúinn á réttum tíma. Þú gætir líka kosið að fara í boðunarstarfið þegar maðurinn þinn er ekki heima. Það er skynsamlegt af kristinni konu að prédika ekki fyrir eiginmanninum ef hann vill það ekki. Hún ætti frekar að fylgja leiðbeiningum Péturs postula: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ (1. Pétursbréf 3:1, 2) Kristnar eiginkonur ættu að leggja sig allar fram um að sýna ávöxt andans. — Galatabréfið 5:22, 23.
EF EIGINKONAN ER EKKI Í TRÚNNI
10. Hvernig ætti eiginmaður að koma fram við konu sína ef hún er annarrar trúar?
10 Segjum nú svo að eiginmaðurinn sé í trúnni en konan ekki. Biblían gefur leiðbeiningar sem eiga við þessar aðstæður. Hún segir: „Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.“ (1. Korintubréf 7:12) Biblían hvetur eiginmenn sömuleiðis: „Elskið eiginkonur yðar.“ — Kólossubréfið 3:19.
11. Hvers vegna er mikilvægt að eiginmaður sýni góða dómgreind og fari vel með forystuhlutverkið ef eiginkonan er ekki í trúnni?
11 Ef konan þín er ekki sömu trúar og þú skaltu gæta þess sérstaklega að sýna henni virðingu og gefa gaum að tilfinningum hennar. Hún er fullorðin manneskja og hefur því töluvert svigrúm til að stunda trú sína jafnvel þótt trúarskoðanir ykkar fari ekki saman. Ætlastu ekki til þess að hún afneiti rótgrónum trúarhugmyndum og taki upp nýjar í fyrsta skipti sem þú talar við hana um trú þína. Sýndu þolinmæði og rökræddu við hana um kenningar Biblíunnar í stað þess að segja henni umbúðalaust að trúarvenjur, sem eru henni og fjölskyldu hennar kærar, séu rangar. Kannski finnst henni þú vanrækja sig ef þú notar mikinn tíma í safnaðarlífið. Hún setur sig ef til vill upp á móti því sem þú gerir til að þjóna Jehóva en er í rauninni að segja: „Gefðu mér meira af tíma þínum.“ Vertu þolinmóður. Ef þú sýnir henni ást og umhyggju tekst þér kannski með tímanum að hjálpa henni að taka upp sanna tilbeiðslu. — Kólossubréfið 3:12-14; 1. Pétursbréf 3:8, 9.
UPPELDI BARNANNA
12. Hvernig ætti að beita meginreglum Biblíunnar við fræðslu barnanna ef hjónin eru ekki sömu trúar?
12 Á heimili, sem er ekki sameinað í sömu trú, getur orðið ósætti um trúfræðslu barnanna. Hvernig ætti að beita meginreglum Biblíunnar þegar svo háttar til? Biblían felur föðurnum meginábyrgðina á því að kenna börnunum en móðirin hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna. (Orðskviðirnir 1:8; samanber 1. Mósebók 18:19; 5. Mósebók 11:18, 19.) Þótt faðirinn fylgi ekki forystu Krists er hann eftir sem áður höfuð fjölskyldunnar.
13, 14. Hvað getur kona gert ef eiginmaðurinn bannar henni að fara með börnin á samkomur eða fræða þau um Biblíuna?
13 Margir feður, sem eru ekki í trúnni, hafa ekkert á móti því að móðirin sjái um trúarlega uppfræðslu barnanna. En sumir vilja það alls ekki. Hvað er til ráða ef maðurinn þinn leyfir þér ekki að taka börnin með á safnaðarsamkomur eða bannar þér jafnvel að fræða þau um Biblíuna innan veggja heimilisins? Þá þarftu að samræma eins vel og þú getur skyldur þínar við Jehóva Guð, manninn þinn og börnin. Hvernig geturðu gert það?
14 Að sjálfsögðu gerirðu þetta mál að bænarefni. (Filippíbréfið 4:6, 7; 1. Jóhannesarbréf 5:14) En að lokum verðurðu sjálf að ákveða hvað þú gerir. Andstaða eiginmanns þíns gæti dvínað ef þú ert háttvís og gerir honum ljóst að þú ert ekki að ögra forræði hans. Þótt hann banni þér að fara með börnin á samkomur eða fræða þau á skipulegan hátt um Biblíuna geturðu kennt þeim margt í daglegum samræðum og með því að vera góð fyrirmynd. Reyndu að vekja með þeim kærleika til Jehóva, trú á orð hans og virðingu fyrir foreldrum sínum — þar á meðal föður þeirra. Kenndu þeim að bera umhyggju fyrir öðrum og brýndu fyrir þeim að vera dugleg og samviskusöm. Með tímanum getur verið að faðirinn taki eftir góðum árangri af erfiði þínu og kunni að meta það sem þú hefur gert. — Orðskviðirnir 23:24.
15. Hvaða ábyrgð verður trúaður faðir að axla í sambandi við fræðslu barnanna?
15 Maður, sem á vantrúaða eiginkonu, verður að axla þá ábyrgð að ala börnin upp „með aga og umvöndun Drottins“. (Efesusbréfið 6:4) En jafnframt þarf hann alltaf að gæta þess að vera hlýlegur, kærleiksríkur og sanngjarn gagnvart konunni.
EF ÞÚ ERT ANNARRAR TRÚAR EN FORELDRARNIR
16, 17. Hvaða meginreglur verða börn að hafa í huga ef þau tileinka sér aðrar trúarskoðanir en foreldrarnir?
16 Nú á dögum er orðið algengt að börn undir lögaldri tileinki sér aðrar trúarskoðanir en foreldrarnir. Hefur þú gert það? Þá gefur Biblían þér góð ráð.
17 Í orði Guðs segir: „Hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður.‘“ (Efesusbréfið 6:1, 2) Þetta felur í sér að bera heilbrigða virðingu fyrir foreldrum sínum. En þótt mikilvægt sé að hlýða foreldrunum er einnig mikilvægt að hlýða hinum sanna Guði. Þegar barn verður nógu gamalt til að taka eigin ákvarðanir þarf það að bera aukna ábyrgð á verkum sínum gagnvart landslögum en ekki síður gagnvart lögum Guðs. „Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig,“ segir Biblían. — Rómverjabréfið 14:12.
18, 19. Hvernig getur barn, sem er annarrar trúar en foreldrarnir, hjálpað þeim að skilja trúna betur?
18 Ef trú þín verður til þess að þú gerir einhverjar breytingar í lífi þínu skaltu reyna að skilja sjónarmið foreldra þinna. Þau verða sennilega ánægð ef kenningar Biblíunnar, sem þú ert að læra, gera þig kurteisari, hlýðnari og fúsari til að rækja vel þær skyldur sem þau leggja þér á herðar. En ef nýja trúin verður einnig til þess að þú hafnar trú og siðum, sem þeim þykir vænt um, finnst þeim þú kannski vera að lítilsvirða þann trúararf sem þau vildu gefa þér. Þau óttast ef til vill um hag þinn ef það sem þú ert að gera er ekki vinsælt í þjóðfélaginu eða ef það beinir huga þínum frá því sem þau telja að geti orðið þér til framdráttar fjárhagslega. Stolt gæti líka haft áhrif á afstöðu þeirra. Hugsanlega finnst þeim þú vera að gefa í skyn að þú sért á réttri braut en þau ekki.
19 Reyndu því að gera ráðstafanir eins fljótt og þú getur til að foreldrar þínir hitti öldunga eða aðra þroskaða votta í söfnuðinum. Hvettu þá til að koma í ríkissalinn til að heyra sjálfir hvað er fjallað um á samkomum og sjá með eigin augum hvers konar fólk vottar Jehóva eru. Afstaða þeirra gæti mildast með tímanum. Jafnvel þótt foreldrar séu mjög mótfallnir trú barna sinna, eyðileggi biblíunámsrit þeirra og banni þeim að fara á samkomur er yfirleitt hægt að lesa annars staðar, tala við trúsystkini og vitna fyrir öðrum með óformlegum hætti. Þú getur líka beðið til Jehóva. Sumir unglingar verða að sætta sig við að geta ekki gert meira fyrr en þeir eru orðnir nógu gamlir til að flytja að heiman. En hvernig sem aðstæðurnar eru heima fyrir skaltu ekki gleyma að „heiðra föður þinn og móður“. Leggðu þitt af mörkum til að stuðla að friði á heimilinu. (Rómverjabréfið 12:17, 18) Og umfram allt skaltu eiga frið við Guð.
VANDINN AÐ VERA STJÚPFORELDRI
20. Hvaða tilfinningar gætu togast á hjá börnum í stjúpfjölskyldu?
20 Á mörgum heimilum er mesti vandinn ekki fólginn í trúnni heldur fjölskyldutengslunum. Það er orðið algengt að þegar stofnað er til hjúskapar eigi annað eða bæði hjónanna börn úr fyrra hjónabandi. Í slíkum fjölskyldum er ekki óalgengt að börnin finni fyrir afbrýði og gremju eða viti ekki hverjum þau eigi að sýna hollustu. Það gæti orðið til þess að þau taki það óstinnt upp þegar stjúpforeldrið reynir að vera góður faðir eða móðir. Hvað getur hjálpað stjúpfjölskyldum að eiga farsælt fjölskyldulíf ?
21. Af hverju ættu stjúpforeldrar að fylgja meginreglum Biblíunnar þótt aðstæður þeirra séu ekki hefðbundnar?
21 Það er gott að hafa hugfast að þær meginreglur, sem stuðla almennt að farsælu fjölskyldulífi, gilda einnig hjá stjúpfjölskyldum þó að aðstæður þeirra séu ekki hefðbundnar. Það virðist kannski leysa ákveðin vandamál til skamms tíma litið að hunsa þessar meginreglur en það er sennilega ávísun á sorgir og erfiðleika síðar. (Sálmur 127:1; Orðskviðirnir 29:15) Þroskaðu með þér visku og skilning. Sýndu þá visku að fara eftir meginreglum Guðs því að það er til góðs þegar til langs tíma er litið. Reyndu að glöggva þig á því hvers vegna fjölskyldumeðlimir segja og gera vissa hluti. Það er líka mikilvægt að sýna samkennd og setja sig í spor þeirra. — Orðskviðirnir 16:21; 24:3; 1. Pétursbréf 3:8.
22. Af hverju gæti börnum fundist erfitt að sætta sig við stjúpforeldri?
22 Stjúpforeldrar minnast þess kannski að börnin tóku þeim fagnandi meðan þeir voru bara fjölskylduvinir. En þegar þeir urðu stjúpforeldrar barnanna breyttist viðmótið. Börnunum verður ef til vill hugsað til kynforeldris síns sem býr ekki lengur með þeim og hollusta þeirra við stjúpforeldrið og kynforeldrið togast á. Þeim finnst kannski að þú ætlir að taka frá þeim þá ást sem þau bera til foreldrisins sem er ekki á staðnum. Þau gætu átt til að segja þér umbúðalaust að þú sért ekki mamma þeirra eða pabbi. Þetta er særandi. En „ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast“. (Prédikarinn 7:9) Þú þarft að sýna skilning og samkennd til að bregðast rétt við tilfinningum barnsins.
23. Hvað er gott að hafa í huga þegar þarf að aga börn í stjúpfjölskyldu?
23 Þessir eiginleikar eru mjög mikilvægir þegar börnin þurfa á ögun að halda. Aginn þarf að vera stefnufastur. (Orðskviðirnir 6:20; 13:1) En þar sem börn eru ólík getur þurft að aga þau á mismunandi hátt. Sumir stjúpforeldrar hafa komist að raun um að oft er betra fyrst í stað að kynforeldrið sjái um þennan þátt uppeldisins. Báðir foreldrar þurfa samt að vera sammála um ögunina og fylgja henni eftir. Þeir mega ekki gera upp á milli sinna barna og stjúpbarnanna. (Orðskviðirnir 24:23) Börnin þurfa að vera hlýðin en það má ekki ætlast til þess að þau geri aldrei mistök. Gerðu ekki of mikið úr hlutunum. Agaðu börnin í kærleika. — Kólossubréfið 3:21.
24. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir vanda af siðferðilegu tagi í stjúpfjölskyldum?
24 Oft er hægt að afstýra erfiðleikum með því að ræða málin sameiginlega. Það getur auðveldað fjölskyldunni að einbeita sér að því sem mestu máli skiptir í lífinu og leitt öllum fyrir sjónir hvernig þeir geta stuðlað að því að fjölskyldan nái markmiðum sínum. (Samanber Filippíbréfið 1:9-11.) Opinskáar umræður geta líka komið í veg fyrir vanda af siðferðilegu tagi. Stúlkur þurfa að gera sér grein fyrir því hvernig þær eigi að klæðast og hegða sér í návist stjúpföður síns og stjúpbræðra. Og drengir þurfa að fá leiðbeiningar um viðeigandi framkomu við stjúpmóður og stjúpsystur. — 1. Þessaloníkubréf 4:3-8.
25. Hvaða eiginleikar geta stuðlað að friði í stjúpfjölskyldu?
25 Að vera stjúpforeldri er heilmikil áskorun og kostar mikla þolinmæði. Það tekur tíma að mynda ný fjölskyldubönd. Það er ekki hlaupið að því að ávinna sér ást og virðingu barna sem maður á ekki sjálfur. En það er hægt. Viturt og hyggið hjarta ásamt sterkri löngun til að þóknast Jehóva er lykillinn að því að varðveita heimilisfrið stjúpfjölskyldunnar. (Orðskviðirnir 19:8) Þessir eiginleikar geta líka hjálpað þér á öðrum sviðum.
VELDUR SÓKN Í EFNISLEG GÆÐI SUNDRUNGU Í FJÖLSKYLDUNNI?
26. Hvernig geta fjárhagserfiðleikar og röng viðhorf til efnislegra hluta valdið sundrungu í fjölskyldunni?
26 Fjárhagserfiðleikar og röng viðhorf til efnislegra hluta geta valdið sundrungu í fjölskyldunni. Því miður gerist það að deilur um peningamál og löngun til að vera ríkur — eða að minnsta kosti aðeins ríkari — raska friði sumra fjölskyldna. Ósamlyndi getur skapast þegar bæði hjónin vinna úti og fara að líta svo á að þau eigi ein þá peninga sem þau vinna sér inn. Og jafnvel þótt útivinnandi hjónum takist að forðast rifrildi gæti vinnutíminn verið þannig að þau hafi lítinn tíma til að vera saman. Það verður sífellt algengara að feður séu fjarri fjölskyldunni langtímum saman — svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir — til að þéna meira en þeir gætu gert á heimaslóðum. Þetta getur haft mjög alvarleg vandamál í för með sér.
27. Hvaða meginreglur geta hjálpað fjölskyldu sem á í fjárhagserfiðleikum?
27 Það er ekki hægt að setja neinar reglur um þessi mál þar sem þarfir fólks eru ólíkar og vandamálin sömuleiðis. En leiðbeiningar Biblíunnar geta eftir sem áður komið að gagni. Í Orðskviðunum 15:22 er til dæmis bent á að hægt sé að forðast óþarfa árekstra með því að „leggja á ráðin“ í sameiningu. Það er ekki aðeins fólgið í því að segja sína eigin skoðun heldur líka að leita ráða maka síns og heyra hvernig hann lítur á málin. Raunhæf fjárhagsáætlun getur einnig hjálpað öllum í fjölskyldunni að leggjast á eitt. Stundum getur verið nauðsynlegt, að minnsta kosti um tíma, að bæði hjónin vinni úti til að standa straum af auknum útgjöldum, sérstaklega ef þau eiga fyrir börnum eða öðrum að sjá. Þá ætti eiginmaðurinn að gæta þess vel að þau hjónin hafi samt tíma til vera hvort með öðru. Hann og börnin ættu að sýna þá umhyggju að hjálpa til við þau störf sem húsmóðirin var kannski vön að sinna ein. — Filippíbréfið 2:1-4.
28. Hvaða leiðbeiningar geta hjálpað fjölskyldum að vinna að einingu?
28 Hafðu samt hugfast að þótt peningar séu nauðsynlegir í þessum heimi færa þeir ekki hamingju. Og ekki veita þeir okkur líf. (Prédikarinn 7:12) Of mikil áhersla á efnislega hluti er ávísun á trúarlegt og siðferðilegt skipbrot. (1. Tímóteusarbréf 6:9-12) Það er mun skynsamlegra að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis. Þá lofar hann að blessa viðleitni okkar til að sjá okkur farborða. (Matteus 6:25-33; Hebreabréfið 13:5) Láttu andleg mál hafa forgang í lífinu og leggðu þig fram um að eiga frið við Guð öðrum fremur. Þá eru góðar líkur á að fjölskyldan verði sameinuð um það sem mestu máli skiptir þrátt fyrir erfiðar aðstæður af ýmsum toga.