4. KAFLI
Að halda heimili
1. Af hverju getur verið erfitt að halda heimili nú á dögum?
MARGT er að breytast nú á dögum, sérstaklega í tengslum við fjölskyldulífið. Það sem var álitið eðlilegt eða hefðbundið fyrir 40 til 50 árum telst óviðunandi núna. Af þessum sökum getur verið erfitt að halda heimili. En það er hægt ef farið er eftir leiðbeiningum Biblíunnar.
LIFIÐ EKKI UM EFNI FRAM
2. Hvaða fjárhagsaðstæður geta valdið álagi innan fjölskyldunnar?
2 Margir sætta sig ekki lengur við að lifa einföldu lífi sem snýst aðallega um fjölskylduna. Viðskiptaheimurinn framleiðir sífellt fleiri vörur og notar lúmska auglýsingatækni til að freista fólks. Milljónir foreldra vinna langan vinnudag til að geta keypt þessar vörur. Aðrar milljónir vinna baki brotnu svo að fjölskyldan hafi til hnífs og skeiðar. Til að eiga fyrir nauðþurftum þarf þetta fólk að vinna mun lengri vinnudag en gert var áður fyrr og jafnvel á tveimur vinnustöðum. Aðrir myndu telja sig sæla að fá vinnu því að atvinnuleysi er víða orðið algengt. Já, líf nútímafjölskyldu er ekki alltaf auðvelt en meginreglur Biblíunnar geta hjálpað fjölskyldum að gera sitt besta miðað við aðstæður.
3. Hvaða meginreglu setti Páll postuli fram og hvernig getur hún hjálpað okkur að halda heimili?
3 Páll postuli dró mikilvægan lærdóm af fjárhagserfiðleikum sem hann átti við að glíma. Hann sagði í bréfi til Tímóteusar, vinar síns: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:7, 8) Auðvitað er ekki nóg fyrir fjölskyldur að hafa aðeins fæði og klæði. Þær þurfa líka þak yfir höfuðið, börnin þurfa menntun og greiða þarf ýmsan sjúkrakostnað og önnur útgjöld. En samt á meginreglan í orðum Páls fyllilega við. Lífið verður mun auðveldara ef við látum okkur nægja að uppfylla þarfir okkar en ekki langanir.
4, 5. Hvernig hjálpar fyrirhyggja og skipulagning fólki við heimilishaldið?
4 Við finnum aðra góða meginreglu í einni af líkingum Jesú. Hann sagði: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ (Lúkas 14:28) Jesús er að hvetja fólk til að sýna fyrirhyggju og hugsa málin til enda. Við sáum fyrr í bókinni hvernig þessi meginregla hjálpar ungu fólki í giftingarhugleiðingum. Eftir brúðkaupið getur hún líka hjálpað hjónum að halda heimili. Fyrirhyggja á þessu sviði felur í sér að gera fjárhagsáætlun og skipuleggja fram í tímann svo að hægt sé að nýta alla möguleika á sem bestan hátt. Þannig getur fjölskyldan stjórnað útgjöldum, lagt peninga til hliðar daglega eða vikulega fyrir nauðsynjum og gætt þess að lifa ekki um efni fram.
5 Í sumum löndum útheimtir þetta að fólk noti kreditkort sparlega og freistist ekki til að taka lán með háum vöxtum til að kaupa óþarfa hluti. (Orðskviðirnir 22:7) Það getur líka verið nauðsynlegt að kaupa ekki hluti í fljótfærni án þess að hugsa um afleiðingarnar eða vega og meta hvort maður þurfi á þeim að halda. Þegar fjárhagsáætlun er gerð kemur einnig skýrt í ljós að fjárhættuspil, tóbaksreykingar og ofdrykkja skaðar fjárhag fjölskyldunnar auk þess sem það brýtur í bága við meginreglur Biblíunnar. — Orðskviðirnir 23:20, 21, 29-35; Rómverjabréfið 6:19; Efesusbréfið 5:3-5.
6. Hvaða biblíusannindi geta hjálpað þeim sem búa við fátækt?
6 En hvað um þá sem eiga ekki annarra kosta völ en að búa við fátækt? Í fyrsta lagi geta þeir leitað huggunar í því að þetta alþjóðlega vandamál er aðeins tímabundið. Í nýja heiminum, sem er skammt undan, mun Jehóva útrýma fátækt og öllum öðrum vandamálum sem hrjá mannkynið. (Sálmur 72:1, 12-16) En þangað til þurfa sannkristnir menn ekki að örvænta þótt þeir séu fátækir því að þeir treysta á loforð Jehóva: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Þess vegna geta þeir öruggir sagt: „Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast.“ (Hebreabréfið 13:5, 6) Jehóva styður þjóna sína á þessum erfiðu tímum ef þeir lifa eftir meginreglum hans og setja ríki hans framar öðru í lífinu. (Matteus 6:33) Margir geta vitnað um það og tekið undir orð Páls postula: „Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:12, 13.
HJÁLPIST AÐ
7. Hvaða orðum Jesú ættum við að fylgja til að auðvelda okkur að annast heimilið?
7 Undir lok þjónustu sinnar hér á jörð sagði Jesús: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:39) Ef við fylgjum þessari meginreglu í fjölskyldunni verður auðveldara að annast heimilið. Nákomnasti náungi okkar er á heimilinu — eiginmaðurinn og eiginkonan, foreldrarnir og börnin. Hvernig getum við sýnt kærleika innan fjölskyldunnar?
8. Hvernig er hægt að sýna kærleika innan fjölskyldunnar?
8 Hver og einn getur sýnt kærleika með því að vinna sinn skerf af heimilisverkum. Börn ættu að læra að ganga frá fötum og leikföngum eftir sig. Það kostar smá tíma og fyrirhöfn að búa um rúmið á hverjum morgni en það gerir heimilisstörfin auðveldari. Auðvitað er óhjákvæmilegt að stundum verði svolítil óreiða á heimilinu en allir geta tekið þátt í því að halda heimilinu tiltölulega snyrtilegu og ganga frá eftir matinn. Leti, sjálfsdekur og neikvæðni hafa slæm áhrif á alla. (Orðskviðirnir 26:14-16) Á hinn bóginn stuðlar jákvætt viðhorf og fúsleiki að farsælu fjölskyldulífi. „Guð elskar glaðan gjafara.“ — 2. Korintubréf 9:7.
9, 10. (a) Hvað hvílir oft á húsmæðrum og hvernig er hægt að létta undir með þeim? (b) Hvaða viðhorf ætti að hafa til heimilisverka?
9 Kærleikur og tillitsemi getur komið í veg fyrir ákveðið vandamál sem er nokkuð útbreitt. Það er gömul hefð fyrir því að húsmæður annist flestöll heimilisstörfin. Þær hafa sinnt börnunum, þrifið heimilið, þvegið þvottinn, keypt í matinn og eldað. Í sumum löndum er einnig venja að þær vinni á ökrunum, selji afurðir á mörkuðum eða drýgi tekjur heimilisins með öðrum hætti. Milljónir kvenna hafa þurft að fara út á vinnumarkaðinn, jafnvel á svæðum þar sem áður var ekki hefð fyrir því að giftar konur ynnu úti. Eiginkona og móðir, sem leggur sig kappsamlega fram á öllum þessum sviðum, á hrós skilið. Hún hefur í nógu að snúast eins og væna konan sem lýst er í Biblíunni og „etur ekki letinnar brauð“. (Orðskviðirnir 31:10, 27) Þetta þýðir samt ekki að enginn nema konan getið unnið heimilisstörfin. Ef bæði hjónin hafa unnið fullan vinnudag utan heimilisins, er þá sanngjarnt að konan ein beri hitann og þungann af heimilisverkunum á meðan eiginmaðurinn og aðrir í fjölskyldunni hvíla sig? Auðvitað ekki. (Samanber 2. Korintubréf 8:13, 14.) Tökum dæmi: Ef húsmóðirin ætlar að elda matinn yrði hún örugglega þakklát ef hinir í fjölskyldunni hjálpuðu henni við undirbúninginn með því að leggja á borð, kaupa inn eða taka til á heimilinu. Já, allir geta lagt sitt af mörkum. — Samanber Galatabréfið 6:2.
10 Sumir segja kannski: Þar sem ég bý er það ekki í verkahring karlmanna að sinna þessum störfum. Það getur verið en er ekki gott að hugleiða málið aðeins? Þegar Jehóva Guð stofnaði fjölskylduna tók hann aldrei fram að ákveðin störf væru aðeins ætluð konum. Hinn trúfasti Abraham fékk einu sinni heimsókn frá sérstökum sendiboðum Jehóva og þá tók hann sjálfur þátt í að hafa til matinn fyrir gestina og bera hann á borð. (1. Mósebók 18:1-8) Biblían segir: „Eiginmennirnir [skulu] elska konur sínar eins og eigin líkami.“ (Efesusbréfið 5:28) Ef eiginmaðurinn er þreyttur í lok dagsins og langar til að hvíla sig, er þá ekki líklegt að eiginkonunni líði eins og hún sé jafnvel enn þreyttari? (1. Pétursbréf 3:7) Væri þá ekki viðeigandi og kærleiksríkt af eiginmanninum að taka þátt í heimilisstörfunum? — Filippíbréfið 2:3, 4.
11. Á hvaða hátt var Jesús góð fyrirmynd fyrir alla í fjölskyldunni?
11 Jesús er besta dæmið um mann sem hafði velþóknun Guðs og gladdi fólkið í kringum sig. Þótt hann hafi aldrei kvænst er hann góð fyrirmynd fyrir eiginmenn og einnig fyrir eiginkonur og börn. Hann sagði um sjálfan sig: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna.“ (Matteus 20:28) Það er yndislegt að tilheyra fjölskyldu þar sem allir hugsa þannig.
HREINLÆTI ER MIKILVÆGT
12. Hvers krefst Jehóva af þeim sem þjóna honum?
12 Í 2. Korintubréfi 7:1 finnum við aðra meginreglu sem hjálpar okkur að halda heimili. Þar segir: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál.“ Þeir sem hlýða þessum innblásnu orðum eru Jehóva þóknanlegir því að hann krefst tilbeiðslu sem er „hrein og flekklaus“. (Jakobsbréfið 1:27) Auk þess er þetta allri fjölskyldunni til góðs.
13. Af hverju er hreinlæti á heimilinu mikilvægt?
13 Biblían fullvissar okkur um að sá dagur komi þegar veikindi og sjúkdómar heyra sögunni til. Þá mun „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:4, 5) En þangað til þurfa allar fjölskyldur að glíma við veikindi af og til. Páll og Tímóteus urðu jafnvel veikir. (Galatabréfið 4:13; 1. Tímóteusarbréf 5:23) Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála segja samt að hægt sé að koma í veg fyrir margs konar veikindi. Skynsamar fjölskyldur komast hjá slíkum veikindum með því að halda sér hreinum á líkama og sál. Lítum nánar á málið. — Samanber Orðskviðina 22:3.
14. Hvernig getur hreinleiki á sál verndað fjölskyldur fyrir veikindum?
14 Hreinleiki á sál felur í sér siðferðilegan hreinleika. Eins og við vitum eru siðferðisstaðlar Biblíunnar háir og hún fordæmir hvers konar kynferðissambönd utan hjónabandsins. „Hvorki munu saurlífismenn . . . hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Það skiptir miklu máli í siðspilltum heimi nútímans að kristnir menn fylgi þessum ströngu siðferðisreglum. Ef þeir gera það gleðja þeir Guð og geta verndað fjölskylduna fyrir kynsjúkdómum eins og alnæmi, sárasótt, lekanda og klamydíu. — Orðskviðirnir 7:10-23.
15. Nefndu dæmi um saurgun á líkamanum sem veldur óþörfum veikindum.
15 Það er líka hægt að vernda fjölskylduna fyrir öðrum veikindum með því að ‚hreinsa sig af allri saurgun á líkama‘. Rekja má marga sjúkdóma til þess að fólk heldur líkamanum ekki hreinum. Tóbaksreykingar eru gott dæmi um það. Þær menga ekki aðeins lungun, fötin og loftið heldur eru þær líka heilsuspillandi. Milljónir deyja á ári hverju vegna tóbaksreykinga. Hugsaðu þér, þetta fólk hefði ekki þurft að veikjast og deyja fyrir aldur fram ef það hefði forðast þessa saurgun á líkamanum.
16, 17. (a) Hvaða lagaákvæði Jehóva verndaði Ísraelsmenn fyrir vissum sjúkdómum? (b) Hvernig má fylgja meginreglunni í 5. Mósebók 23:12, 13 á öllum heimilum?
16 Tökum annað dæmi. Fyrir um 3500 árum gaf Guð Ísraelsmönnum lögmálið svo að þeir gætu skipulagt tilbeiðsluna og daglegt líf að vissu marki. Lögmálið verndaði þjóðina gegn ýmsum sjúkdómum með nokkrum grundvallarreglum um hreinlæti. Í einu slíku lagaákvæði var tekið fram hvernig ætti að ganga frá saur. Hann átti að grafa fyrir utan herbúðirnar svo að svæðið, þar sem menn byggju, héldist ómengað. (5. Mósebók 23:12, 13) Þessi fornu lög eru enn þá góð og gild. Fólk veikist og deyr enn þann dag í dag vegna þess að það fylgir þeim ekki. *
17 Í samræmi við þetta ákvæði Móselaganna ætti að halda baðherbergjum og salernum á heimilinu hreinum og sótthreinsuðum, hvort sem þau eru innandyra eða utan. Ef svæðið í kringum salernið er hvorki hreint né lokað af munu flugur sækja í það og dreifa sýklum um heimilið og í matinn. Börn og fullorðnir ættu alltaf að þvo sér um hendurnar eftir að hafa verið á salerninu. Annars bera þau bakteríur með sér á húðinni. Franskur læknir sagði að handaþvottur „væri enn þá ein besta leiðin til að koma í veg fyrir sýkingar í húð og meltingar- og öndunarvegi“.
18, 19. Hvernig er hægt að halda heimilinu hreinu jafnvel þar sem fátækt ríkir?
18 Vissulega getur verið vandasamt að gæta fyllsta hreinlætis þar sem fátækt ríkir. Maður, sem þekkir til aðstæðna á slíkum stöðum, sagði: „Það er mun erfiðara að halda öllu hreinu í svona miklum hita. Sandstormar þekja hvern krók og kima hússins með fíngerðu brúnu ryki. . . . Heilsuspillandi aðstæður skapast einnig þegar fólksfjölgun er ör í borgum og á vissum strjálbýlum svæðum. Algengt er að sjá opin holræsi, skítug almenningssalerni, hauga af uppsöfnuðu sorpi og rottur, kakkalakka og flugur sem bera með sér sjúkdóma.“
19 Við slíkar aðstæður er erfitt að halda heimilinu hreinu. En það er vel þess virði. Sápa, vatn og svolítil viðbótarvinna er ódýrara en lyf og lækniskostnaður. Þeir sem búa á slíkum svæðum ættu að reyna eftir fremsta megni að halda heimilinu og garðinum hreinum og fjarlægja allan saur frá dýrum. Ef stígurinn að heimilinu verður oft forugur á rigningartímum gætirðu kannski borið möl eða steina í stíginn svo að óhreinindi berist ekki inn í húsið. Það gæti líka verið ráðlegt að fara úr skóm áður en farið er inn á heimilið. Gættu þess einnig að vatnsból heimilisins spillist ekki. Talið er að á hverju ári deyi að minnsta kosti tvær milljónir manna vegna sjúkdóma af völdum óhreins vatns eða skorts á hreinlæti.
20. Hverjir eiga að taka þátt í því að halda heimilinu hreinu?
20 Allir eiga að taka þátt í því að halda heimilinu hreinu — móðirin, faðirinn, börnin og gestir. „Allir hafa lært að leggja sitt af mörkum,“ segir átta barna móðir í Keníu. Hreint heimili gefur góða mynd af allri fjölskyldunni. Spænskt máltæki segir: „Fátækt og hreinlæti stangast ekki á.“ Hreinlæti stuðlar að heilbrigðri fjölskyldu, hvort sem hún býr í hreysi eða höll.
HRÓS ER HVETJANDI
21. Hvað stuðlar að ánægjulegra fjölskyldulífi í samræmi við Orðskviðina 31:28?
21 Þegar rætt er um væna eiginkonu í Orðskviðunum segir: „Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni.“ (Orðskviðirnir 31:28) Hvenær hrósaðir þú síðast einhverjum í fjölskyldunni? Við erum eins og plöntur á vorin sem blómstra um leið og þær fá vökvun og yl. Við þurfum að fá þann yl sem fylgir hlýlegu hrósi. Það er hvetjandi fyrir konu að vita að eiginmaðurinn kann að meta alúð hennar og erfiði og lítur ekki á hana sem sjálfsagðan hlut. (Orðskviðirnir 15:23; 25:11) Og það er ánægjulegt fyrir manninn þegar eiginkonan hrósar honum fyrir vinnuna sem hann sinnir utan sem innan heimilisins. Börnin blómstra líka þegar foreldrarnir hrósa þeim fyrir það sem þau gera á heimilinu, í skólanum eða söfnuðinum. Hrós getur áorkað mjög miklu. Það kostar lítið að segja „takk“ en það skilar sér í ánægjulegra fjölskyldulífi.
22. Hvað þarf til að byggja upp hamingjusama fjölskyldu og hvernig er hægt að vinna að því?
22 Það eru margar ástæður fyrir því að ekki er auðvelt að halda heimili en það er engu að síður hægt að gera það vel. „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast,“ segir í Orðskviðunum 24:3. Fjölskyldan sýnir speki og hyggni ef allir leggja sig fram um að læra hver vilji Guðs er og fara eftir honum í lífinu. Það er sannarlega þess virði því það stuðlar að hamingju í fjölskyldulífinu.
^ gr. 16 Í handbók frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er bent á hvernig forðast megi niðurgang, algengan sjúkdóm sem leiðir oft til barnadauða: „Ef enginn kamar er á svæðinu ætti fólk að hafa hægðir í hæfilegri fjarlægð frá húsinu. Gætið þess að það sé gert í að minnsta kosti 10 metra fjarlægð frá vatnsbólum og ekki nálægt leiksvæðum barna. Mokið yfir saurinn með mold.“