Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem þú þarft að gera til að lifa að eilífu

Það sem þú þarft að gera til að lifa að eilífu

30. kafli

Það sem þú þarft að gera til að lifa að eilífu

1. (a) Hvaða tvær leiðir standa þér til boða? (b) Hvernig getur þú valið rétta veginn?

 JEHÓVA GUÐ vill gefa þér óviðjafnanlega gjöf — eilíft líf í réttlátri nýrri skipan sinni. (2. Pétursbréf 3:13) En til að lifa þá þarft þú að gera Guðs vilja núna. Hinn núverandi illi heimur, ásamt öllum sem halda áfram að tilheyra honum, er í þann mund að líða undir lok, „en sá sem gerir Guðs vilja mun lifa að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17, Lifandi orð) Þú átt um tvo vegi að velja — annar liggur til dauðans en hinn til eilífs lífs. (5. Mósebók 30:19, 20) Hvora leiðina munt þú velja?

2. (a) Um hvað verður þú sannfærður ef þú hefur sanna trú? (b) Hvernig mun það hjálpa þér að þjóna Guði ef þú treystir honum eins og barn treystir ástríkum föður sínum?

2 Hvernig sýnir þú að þú hafir valið lífið? Í fyrsta lagi þarft þú að trúa á Jehóva og fyrirætlanir hans. Ert þú fullkomlega sannfærður um að Guð sé til „og að hann umbuni þeim, er hans leita“? (Hebreabréfið 11:6) Þú þarft að treysta Guði eins og sonur eða dóttir treystir ástríkum og miskunnsömum föður. (Sálmur 103:13, 14; Orðskviðirnir 3:11, 12) Hafir þú slíka trú munt þú ekki efast um að ráð hans séu viturleg né vegir hans réttir, jafnvel þótt þú skiljir hann ekki alltaf til fulls.

3. (a) Hvers er krafist auk trúar? (b) Hvaða verk þarft þú að vinna til að sýna að þú veljir lífið?

3 En trúin ein nægir ekki. Þú þarft líka að vinna verk sem sýna hvaða hug þú berð til Jehóva. (Jakobsbréfið 2:20, 26) Hefur þú gert eitthvað til að sýna að þú iðrist þess ranga sem þú hefur gert í fortíðinni? Hefur þú fundið hvöt hjá þér til að iðrast og taka stefnubreytingu til að samræma líf þitt vilja Jehóva? Hefur þú snúið við, það er að segja hafnað sérhverri rangri lífsbraut sem þú kannt að hafa fylgt, og ert þú farinn að gera það sem Guð krefst af þér? (Postulasagan 3:19; 17:30) Slík verk sýna að þú velur lífið.

VÍGSLA OG SKÍRN

4. (a) Hvað ætti að fá þig til að gera vilja Guðs? (b) Hvað er rétt að gera þegar þú ákveður að þú viljir þjóna Guði?

4 Hvað ætti að koma þér til að velja lífið með því að gera vilja Guðs? Þú ættir að finna til þakklætis. Hugsaðu þér hvað Jehóva hefur gert fyrir þig: Hann hefur opnað þér leiðina til að losna undan öllum sjúkdómum, þjáningum og meira að segja dauðanum! Með þeirri dýrmætu gjöf, sem sonur hans var, hefur hann opnað þér leiðina til að hljóta óendanlegt líf í paradís á jörð. (1. Korintubréf 6:19, 20; 7:23; Jóhannes 3:16) Hvað ættir þú að gera þegar kærleikur Jehóva vekur með þér löngun til að elska hann á móti? (1. Jóhannesarbréf 4:9, 10; 5:2, 3) Þú ættir að nálgast Guð í Jesú nafni og segja honum í bæn að þú viljir vera þjónn hans, að þú viljir tilheyra honum. Þannig vígir þú þig Guði. Þessi vígsla er ákvörðun sem þú sjálfur tekur og enginn getur tekið fyrir þig.

5. (a) Hvers ætlast Guð til af þér eftir að þú hefur vígst honum? (b) Hvaða hjálp getur þú fengið til að lifa eftir vígsluheiti þínu?

5 Eftir að þú hefur vígt þig Guði ætlast hann til að þú lifir samkvæmt því. Sýndu þess vegna að þú sért orðheldinn með því að standa við ákvörðun þína eða vígslu svo lengi sem þú lifir. (Sálmur 50:14) Hafir þú náin tengsl við sýnilegt skipulag Guðs geta kristnir bræður þínir hjálpað þér, uppörvað og stutt. — 1. Þessaloníkubréf 5:11.

6. (a) Hvaða skref þarft þú að stíga þegar þú vígir líf þitt Guði? (b) Hvað þýðir skírnin?

6 En þú þarft að gera meira en aðeins að segja Jehóva einslega að þú viljir tilheyra honum. Þú þarft að sýna öðrum að þú hafir vígt þig til að þjóna Guði. Hvernig gerir þú það? Með því að láta skírast í vatni. Slík vatnsskírn er opinber yfirlýsing um að þú hafir vígt líf þitt Jehóva Guði og bjóðir þig fram til að gera vilja hans.

7. (a) Hvaða fordæmi setti Jesús kristnum mönnum? (b) Hvers vegna er sú skírn, sem Jesús gaf fyrirmæli um, ekki fyrir smábörn?

7 Fordæmi Jesú Krists sýnir og sannar að Guð krefst þess að þeir sem vilja þjóna honum láti skírast í vatni. Jesús lét ekki nægja að segja föður sínum að hann væri kominn til að gera vilja hans. (Hebreabréfið 10:7) Þegar hann var í þann mund að hefja þjónustu sína sem prédikari Guðsríkis bauð hann sig fram til þjónustu við Jehóva og var skírður í vatni. (Matteus 3:13-17) Sökum þess að Jesús gaf fordæmið ættu þeir sem núna vígjast Jehóva til að gera vilja hans að láta skírast. (1. Pétursbréf 2:21; 3:21) Meira að segja fól Jesús fylgjendum sínum að gera menn allra þjóða að lærisveinum og skíra síðan þessa nýju lærisveina. Þar var ekki um að ræða barnaskírn heldur skírn manna sem höfðu tekið trú, afráðið að þjóna Jehóva. — Matteus 28:19; Postulasagan 8:12.

8. Hvern í söfnuðinum ættir þú að tala við ef þú vilt láta skírast, og hvers vegna?

8 Hvað ættir þú að gera ef þú hefur einsett þér að þjóna Jehóva og vilt láta skírast? Þú ættir að orða löngun þína við þann umsjónarmann sem er í forsæti í þeim söfnuði votta Jehóva sem þú hefur samband við. Hann mun, ásamt öðrum öldungum í söfnuðinum, fúslega rifja upp með þér það sem þú þarft að vita til að geta þjónað Guði á velþóknanlegan hátt. Síðan getur þú látið skírast.

VILJI GUÐS MEÐ ÞIG

9. Hvað gerði Nói fyrir flóðið sem Guð vill að þú gerir núna?

9 Fyrir flóðið notaði Jehóva Nóa, „prédikara réttlætisins,“ til að vara við eyðingunni sem var í vændum og benda mönnum á eina örugga hælið, örkina. (Matteus 24:37-39; 2. Pétursbréf 2:5; Hebreabréfið 11:7) Guð vill að þú takir þátt í sams konar prédikunarstarfi. Jesús spáði um okkar daga: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Aðrir þurfa að fá að vita það sem þú hefur lært um vilja Guðs, til að þeir geti lifað af endalok þessa heimskerfis og hlotið eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Finnur þú ekki löngun í hjarta þér til að segja öðrum frá því sem getur gefið þeim líf?

10. (a) Hvað ætti náungakærleikurinn að koma okkur til að gera? (b) Hvernig fer stærsti hluti prédikunarinnar fram?

10 Fylgdu fordæmi Krists. Hann beið þess ekki að menn kæmu til sín heldur fór sjálfur og leitaði að þeim sem vildu hlusta á boðskapinn. Og hann gaf fylgjendum sínum — þeim öllum — fyrirmæli um að gera það líka. (Matteus 28:19; Postulasagan 4:13; Rómverjabréfið 10:10-15) Frumkristnir menn hlýddu fyrirmælum Krists og fordæmi og heimsóttu fólk. Þeir fóru hús úr húsi með boðskapinn um Guðsríki. (Lúkas 10:1-6; Postulasagan 20:20) Það er enn helsta leið sannkristinna manna til að inna þjónustu sína af hendi.

11. (a) Hvers vegna þarf hugrekki til að prédika ríki Guðs, en hvers vegna þurfum við ekki að óttast? (b) Hvernig lítur Jehóva á það verk sem við vinnum?

11 Hugrekkis er þörf til að vinna þetta verk. Satan og heimur hans munu örugglega reyna að stöðva þig eins og þeir reyndu að koma í veg fyrir að fylgjendur Jesú á fyrstu öld prédikuðu. (Postulasagan 4:17-21; 5:27-29, 40-42) En þú þarft ekkert að óttast. Jehóva mun styðja við bakið á þér eins og hann studdi og styrkti frumkristna menn. (2. Tímóteusarbréf 4:17) Vertu því hugrakkur! Sannaðu að þú elskir Jehóva og aðra menn með því að eiga sem mestan þátt í að bjarga mannslífum, með því að prédika og kenna. (1. Korintubréf 9:16; 1. Tímóteusarbréf 4:16) Jehóva mun ekki gleyma verki þínu heldur umbuna þér ríkulega. — Hebreabréfið 6:10-12; Títusarbréfið 1:5.

12. Hvað getum við lært af konu Lots?

12 Láttu þér ekki finnast að þú sért að missa af einhverju með því að snúa baki við þessu gamla heimskerfi, því að það hefur ekkert að bjóða sem hefur varanlegt gildi. „Minnist konu Lots,“ sagði Jesús. (Lúkas 17:32) Eftir að hún og fjölskylda hennar höfðu sloppið frá Sódómu leit hún löngunaraugum á það sem hún hafði orðið að skilja eftir. Guð sá hvað var í hjarta hennar og hún varð að saltstöpli. (1. Mósebók 19:26) Vertu ekki eins og kona Lots! Hafðu augun á því sem framundan er, á ‚hinu sanna lífi‘ í nýrri réttlátri skipan Guðs. — 1. Tímóteusarbréf 6:19.

VELDU EILÍFT LÍF Í PARADÍS Á JÖRÐ

13. Hvernig lýsti Jesús því sem við eigum um að velja?

13 Í rauninni er aðeins um tvennt að velja. Kristur líkti því við tvo vegi. Hann sagði að annar vegurinn væri „breiður.“ Þeir sem gengju hann hefðu frelsi til að gera hvað sem þá lysti. Hinn vegurinn væri „mjór.“ Þeir sem gengju þann veg yrðu að hlýða fyrirmælum og lögum Guðs. Jesús benti á að flestir myndu ganga breiða veginn en aðeins fáeinir þann mjóa. Hvorn veginn velur þú? Þegar þú velur skaltu hafa þetta í huga: För eftir breiða veginum endar skyndilega — með tortímingu! Fetir þú hins vegar mjóa veginn munt þú ganga rakleiðis inn í nýja skipan Guðs. Þar getur þú átt þátt í að gera jörðina að dýrlegri paradís þar sem þú getur lifað hamingjusamur að eilífu. — Matteus 7:13, 14.

14. Hverju þarft þú að tilheyra til að lifa inn í nýja skipan Guðs?

14 Ímyndaðu þér ekki að þú getir farið marga mismunandi vegi eða leiðir til að komast inn í nýja skipan Guðs. Þangað liggur aðeins einn vegur. Aðeins ein örk, ekki fjöldi báta, komst heilu og höldnu í gegnum flóðið, og aðeins eitt skipulag — sýnilegt skipulag Guðs — mun lifa af ‚þrenginguna miklu‘ sem nálgast óðfluga. Það er hreinlega ekki satt að öll trúarbrögð séu mismunandi leiðir að sama marki. (Matteus 7:21-23; 24:21) Þú verður að tilheyra skipulagi Jehóva, að gera vilja Guðs til að hljóta þá blessun hans sem eilíft líf er. — Sálmur 133:1-3.

15. (a) Hvað þurfum við að gera á hverjum degi? (b) Hvaða von er miklu meira en aðeins óskadraumur?

15 Hafðu því myndina af þeirri nýju skipan, sem Guð hefur lofað, skýra í huga þér og hjarta. Hugsaðu dag hvern um þau stórfenglegu laun sem Jehóva Guð býður þér — eilíft líf í paradís á jörð. Þau eru ekki óskadraumur heldur veruleiki! Öruggt er að loforð Biblíunnar rætist: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur. . . . Þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ — Sálmur 37:29, 34.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 251]

Vígðu þig Jehóva . . . og láttu skírast.

[Mynd á blaðsíðu 253]

„Minnist konu Lots.“

[Myndir á blaðsíðu 253]

Haltu nýrri skipan Guðs ljóslifandi í huga þér og hjarta.