NÁLÆGÐU ÞIG GUÐI
„Drottinn hefur fyrirgefið ykkur“
„Sá sem getur ekki fyrirgefið öðrum brýtur niður brúna sem hann þarf sjálfur að fara yfir.“ Svo mælti breski sagnfræðingurinn Edward Herbert á 17. öld. Orð hans leggja áherslu á eina ástæðu þess að við þurfum að fyrirgefa öðrum: Fyrr eða síðar þurfum við sennilega að fá fyrirgefningu annarra. (Matteus 7:12) Við höfum þó langtum mikilvægari ástæðu til að vera fús til að fyrirgefa. Skoðum það sem Páll postuli skrifaði í Kólossubréfinu 3:13. – Lestu.
Við erum öll ófullkomin og þess vegna gætum við stundum sært eða móðgað aðra eða aðrir komið illa fram við okkur. (Rómverjabréfið 3:23) Hvernig getum við þá leitast við að eiga frið við alla menn? Páll hvetur okkur til að vera umburðarlynd og sáttfús. Þessar innblásnu leiðbeiningar eiga jafn vel við í dag eins og þær gerðu þegar þær voru skrifaðar fyrir um það bil tvö þúsund árum. Lítum nánar á orð Páls.
„Umberið hvert annað.“ Orðið „umberið“ er þýðing á grísku orði sem ber með sér að vera umburðarlyndur eða þolinmóður. Í fræðiriti segir að kristnir menn sýni þennan eiginleika með því „að vera fúsir til að sýna fólki þolinmæði þótt það hafi galla eða ógeðfellda eiginleika sem fara í taugarnar á þeim.“ Orðin „hvert annað“ vísa til þess að báðir aðilar þurfa að sýna slíkt umburðarlyndi.
Þegar við sjáum að við höfum eiginleika sem gætu farið í taugarnar á öðrum látum við ekki það sem okkur mislíkar í fari annarra raska friðnum okkar í milli. En hvað ef aðrir gera eitthvað á okkar hlut?
„Fyrirgefið hvert öðru.“ Gríska orðið, sem þýtt er „fyrirgefið“, er samkvæmt fræðimanni einum „ekki orðið sem almennt var notað um eftirgjöf eða fyrirgefningu ... heldur hafði það ríkari merkingu og lagði áherslu á miskunnsemi þess sem gaf upp sökina“. Annars staðar segir að orðið geti þýtt „að veita eitthvað af ánægju, góðvild, greiðasemi“. Við sýnum miskunnsemi ef við erum tilbúin að fyrirgefa fúslega jafnvel þó við höfum „sök á hendur öðrum“. En af hverju ættum við að sýna slíka góðvild? Ein ástæðan er sú að við gætum einhvern tíma þurft á fyrirgefningu að halda frá þeim sem braut á okkur.
„Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ Aðalástæða þess að við ættum að fyrirgefa öðrum er sú að Jehóva fyrirgefur okkur. (Míka 7:18) Hugleiddu þá miklu góðvild sem Jehóva hefur sýnt iðrunarfullum syndurum. Ólíkt okkur þá syndgar Jehóva ekki. En hann er samt fús til að fyrirgefa iðrandi syndurum að fullu þótt hann þurfi aldrei að reiða sig á fyrirgefningu þeirra. Jehóva sýnir öðrum fremur að hann fyrirgefur fúslega þeim sem iðrast synda sinna.
Jehóva sýnir öðrum fremur að hann fyrirgefur fúslega þeim sem iðrast synda sinna.
Miskunnsemi Jehóva laðar okkur að honum og vekur með okkur löngun til að líkja eftir honum. (Efesusbréfið 4:32– 5:1) Við getum því spurt okkur: Fyrst Jehóva er svona fús til að fyrirgefa ófullkomnum manni eins og mér af hverju ætti ég þá ekki að fyrirgefa einhverjum sem sér virkilega eftir því að hafa gert á minn hlut? – Lúkas 17:3, 4.
Tillaga að biblíulestri í nóvember og desember
Títusarbréfið 1-3; Fílemonsbréfið 1; Hebreabréfið 1-13; Jakobsbréfið 1-5; 1. Pétursbréf 1-5; 2. Pétursbréf 1-3; 1. Jóhannesarbréf 1-5; 2. Jóhannesarbréf 1; 3. Jóhannesarbréf 1; Júdasarbréfið 1– Opinberunarbókin 1-22