Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÚR SÖGUSAFNINU

Dögun í landi hinnar rísandi sólar

Dögun í landi hinnar rísandi sólar

Boðsmiðum var dreift í Tókýó og Osaka. Flugvélar voru notaðar til að dreifa boðsmiðum yfir Osaka.

HINN 6. september 1926 fluttist pílagrímur (farandumsjónarmaður) af japönskum ættum frá Bandaríkjunum til Japans til að starfa þar sem trúboði. Þar beið hans einn áskrifandi að Varðturninum og sá hafði stofnað biblíunámshóp í Kobe. Biblíunemendurnir héldu fyrsta mótið þar í borg 2. janúar 1927. Alls voru 36 viðstaddir og 8 létu skírast. Þetta var góð byrjun, en hvernig gat þessi fámenni hópur náð til 60 milljóna Japana sem þurftu að sjá sannleiksljós Biblíunnar?

Í maí 1927 tóku atorkusamir biblíunemendur að auglýsa fyrirlestraröð um biblíutengd efni. Fyrsti fyrirlesturinn var haldinn í Osaka og bræðurnir settu upp skilti á gangstéttum, kynntu hann á stórum auglýsingaskiltum og sendu boðsmiða til 3.000 frammámanna. Þeir dreifðu 150.000 boðsmiðum, auglýstu ræðuna í helstu dagblöðum borgarinnar og á 400.000 lestarmiðum. Daginn, sem ræðan var flutt, var 100.000 boðsmiðum dreift úr tveim flugvélum sem flugu yfir borgina. Um 2.300 manns fylltu Asahi-salinn í Osaka til að hlusta á ræðuna „Ríki Guðs er í nánd“. Um þúsund manns urðu frá að hverfa. Sex hundruð áheyrendur stöldruðu við að ræðunni lokinni til að spyrja spurninga og fá svör. Á næstu mánuðum voru fluttar biblíutengdar ræður handa almenningi í Kýótó og fleiri borgum í vesturhluta Japans.

Í október 1927 undirbjuggu Biblíunemendurnir fyrirlestraröð í Tókýó. Boðsmiðar voru sendir frammámönnum, svo sem forsætisráðherra, þingmönnum og leiðtogum trúfélaga og hers. Fyrirlestrarnir voru auglýstir með veggspjöldum og í dagblöðum, og að auki var dreift 710.000 boðsmiðum. Alls komu 4.800 gestir til að heyra þrjá fyrirlestra sem fluttir voru í höfuðborg Japans.

KAPPSAMIR FARANDBÓKSALAR

Katsuo og Hagino Miura.

Farandbóksalar (brautryðjendur) áttu stóran þátt í að flytja boðskapinn um ríkið heim til fólks. Matsue Ishii, einn fyrsti farandbóksalinn í Japan, og Jizo, eiginmaður hennar, fóru yfir þrjá fjórðu hluta landsins, allt frá Sapporo lengst í norðri til Sendai, Tókýó, Yokohama, Nagoya, Osaka, Kýótó, Okayama og Tokushima. Matsue og eldri systir, Sakiko Tanaka, klæddust kimono-þjóðbúningum þegar þær heimsóttu hátt setta embættismenn. Einn þeirra óskaði eftir 300 settum af bókunum Harpa Guðs og Frelsun handa fangelsisbókasöfnum.

Katsuo og Hagino Miura þáðu bækur af systur Matsue og gerðu sér fljótt grein fyrir að þau hefðu fundið sannleikann. Þau létu skírast árið 1931 og gerðust farandbóksalar. Haruichi og Tane Yamada og margir ættingjar þeirra tóku við fagnaðarerindinu einhvern tíma fyrir 1930. Haruichi og Tane gerðust farandbóksalar og Yukiko, dóttir þeirra, fór til starfa á Betel í Tókýó.

STÓRI-JEHÚ OG LITLI-JEHÚ

Sex brautryðjendur gátu sofið í Stóra-Jehú.

Bílar voru afar dýrir í þá daga og vegir slæmir. Kazumi Minoura og fleiri ungir farandbóksalar notuðu því vélarlausa húsvagna. Þeir kölluðu vagnana Jehú eftir ákafa vagnstjóranum sem síðar varð einn af konungum Ísraels. (2. Kon. 10:15, 16) Smíðaðir voru þrír stórir Jehú-vagnar sem voru 2,2 metra langir, 1,9 metra breiðir og 1,9 metra háir. Allt að sex brautryðjendur gátu sofið í slíkum vagni. Auk þess voru smíðaðir 11 litlir Jehú-vagnar við deildarskrifstofuna í Japan en þeir voru hengdir aftan í reiðhjól. Kiichi Iwasaki vann við smíði þessara vagna. Hann segir: „Hverjum Jehú-vagni fylgdi tjald og bílarafgeymir til að lýsa upp vagninn.“ Farandbóksalar drógu Jehú-vagnana og ýttu þeim um dali og fjallvegi allt frá Hokkaido í norðri til Kyushu í suðri, og létu ljós sannleikans lýsa út um Japan.

Litli-Jehú rúmaði tvo brautryðjendur.

Ikumatsu Ota, sem var farandbóksali, segir: „Þegar við komum í bæ lögðum við Jehú-vagninum á árbakka eða opnu svæði. Við byrjuðum á því að heimsækja fyrirmenn bæjarins, svo sem bæjarstjórann, og síðan heimsóttum við aðra bæjarbúa og kynntum ritin okkar. Eftir að hafa farið yfir svæðið héldum við áfram til næsta bæjar.“

Þegar biblíunemendurnir 36 í Kobe héldu fyrsta svæðismótið má segja að það hafi verið ,dagur smárra verka‘. (Sak. 4:10) Aðeins fimm árum síðar, árið 1932, störfuðu 103 farandbóksalar og boðberar í Japan og þeir dreifðu rösklega 14.000 bókum það árið. Núna er vitnað með skipulegum hætti á almannafæri í helstu borgum Japans og næstum 220.000 boðberar láta ljósið skína í Landi hinnar rísandi sólar. – Úr sögusafninu í Japan.

Teikningar Kiichis Iwasakis sem smíðaði Jehú-vagna við Betel í Japan.