Uppörvun „af munni barna“
Í desember 2009 staðfesti Hæstiréttur Rússlands dóm undirréttar með þeim afleiðingum að söfnuðir Votta Jehóva í Taganrog í Rússlandi voru leystir upp. Yfirvöld lögðu hald á ríkissalinn og úrskurðuðu að 34 af ritum okkar boðuðu ofstæki. Birt var frétt af þessum atburðum á vefsetri Votta Jehóva ásamt myndum af vottum sem urðu fyrir áhrifum af þessum dómi, þeirra á meðal ungum börnum.
Nokkrum mánuðum síðar barst kassi til stjórnarmiðstöðvar Votta Jehóva í Rússlandi. Hann var frá fjölskyldu í söfnuðinum sem er búsett í Queensland í Ástralíu en þau höfðu séð fréttina af hæstaréttardómnum. Í meðfylgjandi bréfi stóð: „Kæru bræður. Börnin okkar, Cody og Larissa, voru djúpt snortin að frétta af prófraunum og trúfesti bræðra og systra í Rússlandi. Þau hafa skrifað kort og bréf og við höfum pakkað nokkrum gjöfum sem okkur langar til að senda börnunum í Taganrog. Við viljum bara láta þau vita að langt í burtu búa önnur börn sem eru líka trúföst í þjónustu Jehóva og hugsa til þeirra. Þau senda þeim öllum stórt knús og ástarkveðjur.“
Þegar börnin í Taganrog fengu gjafirnar skrifuðu þau myndskreytt þakkarbréf til fjölskyldunnar í Ástralíu. Bróður á deildarskrifstofunni í Rússlandi fannst þessi uppörvun „af munni barna“ svo sérstök að hann skrifaði Cody og Larissu: „Þið getið rétt ímyndað ykkur hve vont það er, bæði fyrir börn og fullorðna, að vera refsað fyrir eitthvað sem þau gerðu ekki. Bræður okkar og systur í Taganrog hafa ekki gert neitt af sér en ríkissalurinn var samt tekinn af þeim. Þau eru mjög leið yfir því. Það verður uppörvandi fyrir þau að frétta að það er hugsað til þeirra hinum megin á hnettinum. Innilegar þakkir fyrir hlýju ykkar og örlæti.“ – Sálm. 8:3.
Við tilheyrum alþjóðlegu bræðralagi, og kærleikur okkar hvert til annars hjálpar okkur öllum að takast á við prófraunir og erfiðleika lífsins. Meðan deilt er um það fyrir dómstólum hvort Vottar Jehóva reki hatursáróður sýna börnin okkar að þeim er umhugað um velferð hvert annars, óháð landamærum og menningarmun. Hvar sem þau búa í heiminum vitna þau kyrrlát um sannleiksgildi orða Jesú þegar hann sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ – Jóh. 13:35.