Trúir þú að jörðin geti orðið að paradís?
Trúir þú að jörðin geti orðið að paradís?
FÁIR trúa því að jörðin geti einhvern tíma orðið að paradís. Margir halda jafnvel að hún muni farast. Í bók sinni The Sacred Earth segir Brian Leigh Molyneaux að jörðin hafi orðið til í ‚mikilli sprengingu í geimnum‘ fyrir milljónum ára. Og margir trúa því að ef maðurinn eyði ekki jörðinni sjálfur muni allur alheimurinn að lokum „falla saman í brennandi eldhnött“.
John Milton, enskt skáld á 17. öld, leit bjartari augum á framtíð jarðarinnar. Í söguljóði sínu Paradísarmissi orti hann að Guð hefði skapað jörðina til að vera paradísarheimili fyrir mennina. Þessi upprunalega paradís glataðist. En Milton trúði því að hún yrði endurreist — að lausnarinn Jesús Kristur myndi dag einn „umbuna sínum trúföstu og veita þeim fullkomna hamingju . . . á himni eða jörð“. Hann sagði með sannfæringu: „Því þá verður jörðin öll paradís.“
Paradís — á himni eða jörð?
Margt trúað fólk er sömu skoðunar og Milton og telur að það muni hljóta einhvers konar laun fyrir þær miklu þjáningar sem það hefur þurft að þola á jörðinni. En hvar hlýtur það þessi laun? Verður það á „himni eða jörð“? Sumum dettur ekki einu sinni í hug að það verði á jörðinni. Þeir segja að fólk geti aðeins notið fullkominnar hamingju eftir að það yfirgefi jörðina, fari til himna og lifi á andlegu tilverusviði.
Í bókinni Heaven — A History segja höfundarnir Colleen McDannell og Bernhard Lang að guðfræðingurinn Írenaeus, sem var uppi á annarri öld, hafi trúað því að líf í endurreistri paradís „yrði ekki á einhverju fjarlægu himnesku tilverusviði heldur á jörðinni“. Í bókinni kemur einnig fram að þótt trúarleiðtogarnir Jóhann Kalvín og Marteinn Lúter hafi vonast til að fara til himna hafi þeir einnig trúað að „Guð myndi endurnýja jörðina“. Fylgjendur annarra trúarbragða hafa haft svipaðar trúarskoðanir. McDannell og Lang segja að sumir Gyðingar hafi trúað að á tilsettum tíma Guðs yrði öllum þjáningum manna „útrýmt og menn myndu lifa ánægjulegu og innihaldsríku lífi á jörðinni“. Persar til forna trúðu því að „jörðinni yrði komið í sitt upprunalega horf og fólk myndi búa aftur við frið“, segir alfræðiorðabókin The Encyclopaedia of Middle Eastern Mythology and Religion.
Hvað varð um vonina um paradís á jörð? Á tilvist okkar á jörðinni aðeins að vera tímabundin? Á hún bara að vera „stuttur og oft óskemmtilegur kafli“ í ferðalagi til andaheims, eins og fyrstu aldar Gyðingurinn og heimspekingurinn Fílon trúði? Eða hafði Guð eitthvað annað í huga þegar hann skapaði jörðina og setti mennina í paradísargarð? Geta mennirnir verið fullkomlega hamingjusamir á jörðinni og verður andlegri þörf þeirra svalað? Hvernig væri að rannsaka það sem Biblían segir um málið? Þú gætir komist að sömu niðurstöðu og milljónir manna — að það er skynsamlegt að trúa því að jörðin geti orðið að paradís.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Skáldið John Milton trúði að paradís yrði endurheimt.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 3]
Jörðin: U.S. Fish & Wildlife Service, Washington, D.C./NASA. John Milton: Leslie’s.