Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Hvaða ‚hvíld‘ er verið að tala um í Hebreabréfinu 4:9-11 og hvernig er hægt að „ganga inn til þessarar hvíldar“?
Páll skrifaði kristnum Hebreum á fyrstu öldinni og sagði: „Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk. Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar.“ — Hebreabréfið 4:9-11.
Þegar Páll talar um að Guð hafi hvílst eftir verk sín er hann greinilega að vitna í 1. Mósebók 2:2 þar sem segir: „Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.“ Af hverju „hvíldist“ Jehóva „hinn sjöunda dag“? Vissulega þurfti hann ekki að hvíla sig í bókstaflegum skilningi „af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.“ Versið á eftir gefur okkur vísbendingu: „Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.“ — 1. Mósebók 2:3; Jesaja 40:26, 28.
‚Sjöundi dagurinn‘ var ólíkur öllum hinum sex, sem á undan komu, því að Guð blessaði hann og helgaði, það er að segja tók hann frá eða helgaði hann sérstökum tilgangi. Hver var þessi tilgangur? Guð var þegar búinn að opinbera tilgang sinn með mannkynið og jörðina. Hann sagði fyrsta manninum og konu hans: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Þó að Guð hafi skapað mönnunum og jörðinni kjörskilyrði tæki það mennina tíma að gera alla jörðina sér undirgefna og breyta henni í paradís byggða fullkomnu mannkyni í samræmi við tilgang Guðs. Á ‚sjöunda deginum‘ lét hann staðar numið og hvíldist frá sköpunarverki sínu til þess að leyfa því sem hann var þegar búinn að skapa að mótast í samræmi við vilja sinn. Við lok þessa ‚dags‘ yrði vilji Guðs orðinn að veruleika. En hvað verður þessi hvíld löng?
Snúum okkur aftur að orðum Páls í Hebreabréfinu og tökum eftir að hann sagði að ‚enn stæði til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs‘ og hann hvatti trúbræður sína til að kosta kapps „um að ganga inn til þessarar hvíldar.“ Þetta sýnir okkur fram á að ‚sjöundi dagurinn,‘ sem hófst um 4000 árum áður en Páll skrifaði þessi orð, var enn ekki afstaðinn. Honum lýkur ekki fyrr en tilgangur Guðs með mannkynið og jörðina hefur náð fram að ganga en það gerist við lok þúsundáraríkis Jesú Krists sem er „herra hvíldardagsins.“ — Matteus 12:8; Opinberunarbókin 20:1-6; 21:1-4.
Páll hafði þessar dásamlegu framtíðarhorfur og útskýrði hvernig við gætum gengið inn til hvíldar Guðs. Hann sagði: „Sá, sem gengur inn til hvíldar [Guðs], fær hvíld frá verkum sínum.“ Þetta segir okkur að jafnvel þótt Guð hafi skapað mönnunum kjörskilyrði í byrjun hafi mannkynið í heild sinni ekki gengið inn til hvíldar Guðs. Það stafar af því að Adam og Eva virtu aðeins um skamman tíma hvíld Guðs á ‚sjöunda deginum‘ og fylgdu ekki fyrirkomulagi hans heldur gerðu uppreisn og vildu vera óháð honum. Þau snerust á sveif með Satan í stað þess að þiggja kærleiksríka leiðsögn Guðs. (1. Mósebók 2:15-17) Þar af leiðandi glötuðu þau voninni um eilíft líf í paradís á jörð og upp frá því var allt mannkynið undirorpið synd og dauða. — Rómverjabréfið 5:12, 14.
En uppreisn mannsins ónýtti ekki tilgang Guðs og hvíldardagur hans heldur áfram. Jehóva gerði kærleiksríka ráðstöfun fyrir milligöngu sonar síns Jesú Krists. Þessi ráðstöfun var lausnargjaldið og allir sem þiggja það á grundvelli trúar geta hlakkað til lausnar og hvíldar undan synd og dauða. (Rómverjabréfið 6:23) Þess vegna hvatti Páll trúbræður sína til að ‚hvílast frá verkum sínum.‘ Þeir áttu að þiggja hjálpræðisráðstöfun Guðs og ekki reyna að taka framtíðina í eigin hendur eins og Adam og Eva gerðu. Þeir áttu líka að forðast að réttlæta sjálfa sig með eigin verkum.
Það veitir okkur svo sannarlega hvíld að taka vilja Guðs fram yfir eigingjörn hugðarefni. Jesús lét þetta boð út ganga: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.
Orð Páls um hvíld Guðs og hvernig hægt sé að ganga inn til hennar voru kristnum Hebreum í Jerúsalem til mikillar uppörvunar því að þeir höfðu þurft að þola miklar ofsóknir vegna trúar sinnar og voru hafðir að athlægi. (Postulasagan 8:1; 12:1-5) Á svipaðan hátt geta þessi orð uppörvað kristna menn nú á tímum. Við skiljum að uppfylling loforða Guðs um paradís á jörð undir stjórn réttláts ríkis hans er nálæg. Þess vegna ættum við að hvíla okkur frá verkum okkar og gera allt sem í okkar valdi stendur til að ganga inn til þessarar hvíldar. — Matteus 6:10, 33; 2. Pétursbréf 3:13.
[Myndir á blaðsíðu 31]
Loforð Guðs um jarðneska paradís uppfyllist við lok hvíldardagsins.