SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR
Framhjáhald
Þrátt fyrir að flestum finnist tryggð í hjónabandi vera dyggð, sundra hjúskaparbrot enn mörgum fjölskyldum.
Hvað er framhjáhald?
HVAÐ SEGIR FÓLK?
Í sumum menningarsamfélögum eru kynmök utan hjónabands ekki talin röng, sérstaklega þegar eiginmaðurinn á í hlut. Og sumir líta ekki á hjónabandið sem varanlegt.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Í Biblíunni er á nokkrum stöðum talað um hórdóm og er þá almennt átt við það að giftur einstaklingur, hvort sem það er maður eða kona, hafi kynmök við einhvern annan en maka sinn. (Jobsbók 24:15; Orðskviðirnir 30:20) Guð hefur andstyggð á framhjáhaldi. Í Ísrael til forna lá dauðarefsing við slíku athæfi. (3. Mósebók 18:20, 22, 29, New World Translation) Jesús sagði að fylgjendur sínir mættu ekki drýgja hór. – Matteus 5:27, 28; Lúkas 18:18-20.
AF HVERJU SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?
Þeir sem gerast sekir um framhjáhald rjúfa hjúskaparheitið sem þeir gáfu maka sínum þegar þeir gengu í hjónaband. Framhjáhald er líka ,synd á móti Guði‘. (1. Mósebók 39:7-9) Framhjáhald getur kostað börn sársaukafullan aðskilnað frá foreldri sínu. Auk þess segir í Biblíunni að ,hórkarla og frillulífismenn muni Guð dæma‘. – Hebreabréfið 13:4.
„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð.“ – Hebreabréfið 13:4.
Bindur framhjáhald enda á hjónabandið?
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Biblían segir að giftur einstaklingur megi slíta hjónabandi sínu ef makinn gerist sekur um kynferðislegt siðleysi. (Matteus 19:9) Það þýðir að saklausi aðilinn hefur rétt á að ákveða hvort hann ætli að vera áfram í hjónabandi með brotlega makanum eða skilja við hann. Þetta verður hver og einn að ákveða fyrir sjálfan sig. – Galatabréfið 6:5.
Á hinn bóginn er hjónabandið ævilangt og heilagt samband í augum Guðs. (1. Korintubréf 7:39) Guð hatar hjónaskilnað sem byggður er á smávægilegum sökum, eins og að vera ekki nógu sáttur með maka sinn. Hjónaskilnaður er þar af leiðandi ekki léttvæg ákvörðun. – Malakí 2:16, Biblían 1981; Matteus 19:3-6.
„En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess að hún drýgir hór.“ – Matteus 5:32.
Er framhjáhald ófyrirgefanleg synd?
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Nei. Í Biblíunni er sagt að Guð fyrirgefi þeim sem iðrast og hættir að ástunda synd – það á líka við um framhjáhald. (Postulasagan 3:19; Galatabréfið 5:19-21) Biblían segir frá fólki sem hætti siðlausu líferni og eignaðist vináttu við Guð. – 1. Korintubréf 6:9-11.
Við sjáum miskunn Guðs af samskiptum hans við Davíð Ísraelskonung. Davíð drýgði hór með eiginkonu eins af herforingjum sínum. (2. Samúelsbók 11:2-4) Biblían segir afdráttarlaust að „það sem Davíð hafði gert var illt í augum Drottins“. (2. Samúelsbók 11:27) Davíð iðraðist eftir að hafa verið áminntur og Guð fyrirgaf honum. Þó þurfti Davíð að þjást fyrir mistök sín. (2. Samúelsbók 12:13, 14) Síðar sagði hinn vitri konungur Salómon: „Sá sem drýgir hór ... er vitstola.“ – Orðskviðirnir 6:32.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT
Hafir þú framið hjúskaparbrot þarftu að biðja bæði Guð og maka þinn fyrirgefningar. (Sálmur 51:3-7) Lærðu að hata framhjáhald líkt og Guð gerir. (Sálmur 97:10) Vertu staðráðinn í því að forðast klám, kynferðislega hugaróra, daður eða hvaðeina sem gæti vakið upp kynferðislegar langanir til einhvers annars en maka þíns. – Matteus 5:27, 28; Jakobsbréfið 1:14, 15.
Hafi maki þinn gerst sekur um framhjáhald máttu vera viss um að Guð skilur tilfinningar þínar. (Malakí 2:13, 14) Ef þú biður hann um huggun og leiðsögn mun hann „bera umhyggju fyrir þér“. (Sálmur 55:23) Ef þú ákveður að fyrirgefa maka þínum og halda hjónabandinu áfram þurfið þið bæði að leggja mikla vinnu í að styrkja hjónabandið á ný. – Efesusbréfið 4:32.
„Drottinn hefur fyrirgefið þér synd þína,“ sagði Natan spámaður við Davíð eftir að hann hafði iðrast vegna hjúskaparbrotsins. – 2. Samúelsbók 12:13.