Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig má temja sér réttlæti?

Hvernig má temja sér réttlæti?

Hvernig má temja sér réttlæti?

SKAPARINN vill að við séum ánægð, njótum innri friðar og stuðlum að hamingju annarra. Þess vegna vill hann að við,gerum rétt og ástundum kærleika‘. (Míka 6:8) Hvernig getum við gert það? Við þurfum að rækta með okkur eiginleika sem vinna gegn ranglæti. Skoðum hvernig Biblían getur hjálpað okkur til þess.

SIGRAST Á ÁGIRND. Kærleikur er öflugasta vopnið gegn ágirnd. Hann er ekki bara einhver tilfinning innra með okkur eða rómantískt aðdráttarafl. Hann er fórnfús. Í 1. Korintubréfi 13:4, 5 segir að ,kærleikurinn sé góðviljaður‘ og ,leiti ekki síns eigin‘. Hann einskorðar sig heldur ekki við fjölskyldu og vini. „Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?“ spurði Jesús, og bætti við að jafnvel þeir sem þekkja ekki Guð sýni þeim kærleika sem elska þá. – Matteus 5:46.

SIGRAST Á FORDÓMUM. Í Postulasögunni 10:34, 35 stendur: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Guð veitir fólki ekki hjálpræði vegna kynþáttar, þjóðfélagsstöðu eða kyns. Í hans huga er enginn „Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona“. (Galatabréfið 3:28) Þegar við líkjum eftir Guði sigrumst við á fordómum. Tökum sem dæmi Dorothy, en hún bjó í Bandaríkjunum.

Kynþáttafordómar fóru svo fyrir brjóstið á Dorothy að hana langaði til að taka þátt í vopnaðri uppreisn til að vinna gegn kúgun svartra. En um það leyti fór hún á samkomu hjá vottum Jehóva og var djúpt snortin af því hve hlýlega var tekið á móti henni, bæði af svörtum og hvítum. Áður en langt um leið gerði hún sér ljóst að Guð einn getur breytt hugsunarhætti fólks. Þegar hún kynntist falslausum kærleika hvítra votta – fólks sem hún sagði að hún „hefði hiklaust drepið til að stuðnings uppreisninni“ – varð hún svo djúpt snortin að hún réð ekki við sig og fór að hágráta.

SIGRAST Á ANDFÉLAGSLEGRI HEGÐUN. Sumir fylgjendur Jesú á fyrstu öldinni höfðu áður verið ofdrykkjumenn, ræningjar, svallarar og rógberar. En með hjálp Guðs vöndu þeir sig af þessum löstum og ræktuðu í staðinn með sér kærleika, gæsku og góðvild. (1. Korintubréf 5:11; 6:9-11; Galatabréfið 5:22) Eins hafa milljónir manna nú á tímum snúið sér til Guðs og gert jákvæðar breytingar á lífi sínu. Firuddin er dæmi um það, en hann býr í Aserbaídsjan.

Firuddin var alinn upp á munaðarleysingjahæli þar sem hann slóst oft við aðra stráka. Sem fullorðinn maður kenndi hann bardagaíþróttir. „Ég var grimmur, ruddalegur og ofbeldisfullur,“ segir hann. „Ef Zahra, konan mín, gleymdi að setja eitthvað á matarborðið – þó ekki væri nema tannstöngul – lamdi ég hana. Og ég barði hvern þann sem vogaði sér að horfa á hana þegar við vorum á gangi.“

Þegar Firuddin komst að því að Jesús hafði beðið Guð að fyrirgefa hermönnunum sem staurfestu hann hafði það mikil áhrif á hann. (Lúkas 23:34) Hann hugsaði með sér að aðeins sonur Guðs gæti gert eitthvað þessu líkt. Eftir það fór hann að leita Guðs. Þegar vottar Jehóva buðu honum ókeypis aðstoð við að kynna sér Biblíuna þáði hann það fúslega. Áður en langt um leið breyttist hegðun Firuddins til hins betra og hann fór að koma vel fram við Zöhru. Það varð til þess að hún ákvað líka að kynna sér Biblíuna. Núna eru þau friðsöm og tilbiðja Guð í sameiningu.

Að sjálfsögðu breytir það ekki öllum heiminum þó að við breytum okkur sjálfum. En hvað ef Guð hefur áform um að koma á réttlátum nýjum heimi? Hann hefur sannarlega valdið til þess. Og taktu eftir að í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-4, sem talað var um í upphafsgreininni, var sagt fyrir hvernig fólk myndi verða á okkar dögum. Þessi spádómur hefur ræst í smáatriðum – eins og fjöldi annarra spádóma í Biblíunni. Það er því full skynsemi í því að treysta loforði Guðs um að allt ranglæti taki enda. Guð mun koma því til leiðar. Hvernig?

[Rammi/​mynd á bls. 7]

LEIT HEIDE AÐ RÉTTLÆTI

„Ég var í uppnámi vegna kynþáttafordóma, styrjalda, fátæktar og annars óréttlætis og ég leitaði að lausn,“ segir Heide sem býr í Bandaríkjunum. „Ég prófaði að vinna með samtökum sem beittu sér fyrir borgaralegum réttindum og gekk með tímanum í stjórnmálaflokk, en hvorugt virtist geta komið á markverðum breytingum.

Mér fannst að það þyrfti að gera róttækari breytingar og hippahreyfingin virtist lofa góðu. En hún olli mér líka vonbrigðum. Ég tók eftir því að margir hippar höfðu meiri áhuga á kynlífi, dópi og rokki heldur en að breyta kerfinu. Það varð til þess að ég sökk niður í alvarlegt þunglyndi. En þá hitti ég vott Jehóva sem sýndi mér frá Biblíunni hvaða breytingum Guð hefur lofað að koma á. Hún sýndi mér til dæmis Opinberunarbókina 21:3, 4 þar sem segir að Guð muni þerra tár allra og afmá harm, vein og kvöl – sem eru oft fylgifiskar ranglætis. Ég spurði mig: ,Getur verið að þetta sé satt?‘

Efasemdir mínar hurfu þegar ég las um mátt Guðs og kærleika í Biblíunni og fann fyrir kærleikanum sem ríkti meðal votta Jehóva. Núna bíð ég spennt eftir því að loforð Guðs rætist.“

[Mynd á bls. 6]

Við sigrumst á fordómum með því að líkja eftir kærleika Guðs.

[Mynd á bls. 6]

Firuddin með Zöhru eiginkonu sinni.