Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bókasafnið í Alexandríu er risið að nýju

Bókasafnið í Alexandríu er risið að nýju

Bókasafnið í Alexandríu er risið að nýju

ÞETTA var frægasta bókasafn síns tíma. Það gerði heimaborg sína, Alexandríu í Egyptalandi, að háborg helstu hugsuða heims. Enginn veit nákvæmlega hvenær eða hvernig það hvarf af sjónarsviðinu en hvarf þess var reiðarslag fyrir fræðimenn því að með því hurfu ómetanleg verk. Þetta mikla bókasafn hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga ef svo má að orði komast.

Hið fræga bókasafn í Alexandríu hefur verið endurbyggt í óvenjulegu formi. Aðalbygging nýja safnsins, sem kallast Bibliotheca Alexandrina, líkist risastórri hallandi trommu. Þakið er gert úr geri og málmi (1) og er næstum á stærð við tvo fótboltavelli. Það snýr í norður og er með gluggum sem lýsa upp aðallestrarsalinn (2). Í þessari stóru sívölu byggingu, sem nær að hluta til niður fyrir sjávarmál, er aðstaða ætluð almenningi. Þakið er flatt og gljáandi. Þar sem það nær hæst er það á við sjö hæða blokk en þar sem það er lægst er því sökkt niður í jörðina. Þegar horft er á bygginguna úr fjarlægð og sólarljósið endurspeglast af þakinu minnir bókasafnið á sólarupprás.

Bogadreginn útveggur byggingarinnar er klæddur gráu graníti og í vegginn eru höggnir stafir úr fornum stafrófum og nýjum (3). Stafirnir upp eftir veggjunum tákna þær einingar sem notaðar hafa verið til að byggja upp þekkingu manna.

Í stærstum hluta þessarar sívölu byggingar er opinn lestarsalur á pöllum (4). Neðanjarðar er rými fyrir 8 milljónir bóka. Í safninu eru einnig sýningarsalir, fyrirlestrarsalir og hjálpartæki fyrir sjónskerta (5). Aðskilin kúlulaga bygging minnir á gervihnött sem búið er að stöðva á sporbraut sinni og þar er að finna stjörnuver (6). Háþróaður tölvu- og eldvarnarbúnaður fullkomnar síðan þessa glæsilegu stofnun.

Hið fornfræga bókasafn

Til forna var Alexandría þekkt fyrir vitann á Faros sem sagður var yfir 110 metrar á hæð og talinn eitt af sjö undrum veraldar. Þar var einnig gröf Alexanders mikla. Hvort tveggja er nú horfið. Hin gríska konungsætt Ptólemea erfði Egyptaland af Alexander og stjórnaði landinu þar til Oktavíanus sigraði Markús Antoníus og Kleópötru árið 30 f.o.t. Undir stjórn Ptólemea gerbreyttist Alexandría. „Um tíma varð hún miðstöð viðskipta og menningar á heimsmælikvarða,“ segir í bókinni Atlas of the Greek World. Þegar borgin var í mestum blóma bjuggu þar um 600.000 manns.

Það helsta, sem laðaði fólk að borginni, var konunglega bókasafnið. Því var komið á laggirnar snemma á þriðju öld f.o.t. og konungsætt Ptólema styrkti það rausnarlega. Bókasafnið og Museion (musteri menntagyðjanna) urðu uppfinninga- og menntamiðstöðvar hellenska heimsins.

Talið er að í bókasafninu hafi verið um 700.000 papírushandrit. Til samanburðar má geta þess að á 14. öld státaði Sorbonne-bókasafnið af því að eiga stærsta safn þess tíma en í því voru aðeins 1700 bækur. Stjórnendur Egyptalands voru svo ákveðnir í því að auka við safn sitt að þeir létu hermenn leita að handritum í öllum skipum sem komu til landsins. Þeir héldu þeim handritum sem þeir fundu en skiluðu afritum. Sumar heimildir segja að þegar Aþena lánaði Ptólemeusi III ómetanleg handrit af klassísku grísku leikritunum hafi hann lofað að greiða tryggingu fyrir þau og gera af þeim afrit. Konungurinn greiddi hins vegar aldrei trygginguna, hélt upprunalegu handritunum og skilaði afritunum til baka.

Margir frægir snillingar fortíðar unnu við söfnin í Alexandríu. Menntamenn þar í borg unnu mörg afrek á sviði rúmfræði, hornafræði, stjörnufræði, læknisfræði, tungumála og bókmennta. Sagan segir að þar hafi 72 grískir fræðimenn þýtt hebresku ritningarnar á Grísku og þannig hafi hin fræga Sjötíumannaþýðing orðið til.

Bókasafnið hverfur af sjónarsviðinu

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að annálsritarar sáu litla ástæðu til að gefa nákvæma lýsingu á stofnunum Alexandríu. Orð Aþenaiosar, sagnaritara á þriðju öld, eru dæmigerð: „Óþarft tel ég að minnast á fjölda bóka, lýsa bókasafninu eða safninu í musteri menntagyðjanna því að slíkt er vel geymt í minnum manna.“ Nútímafræðimönnum gremjast slíkar athugasemdir því að þeir þrá að vita meira um þetta athyglisverða bókasafn fortíðar.

Að öllum líkindum var bókasafnið horfið af sjónarsviðinu þegar Arabar lögðu Egyptaland undir sig um árið 640 e.o.t. Fræðimenn deila enn um það hvenær og hvernig það hvarf. Sumir segja að líklega hafi stór hluti þess glatast þegar Júlíus Sesar lét kveikja í hluta borgarinnar árið 47 f.o.t. En hver svo sem ástæðan var glataðist gríðarmikil þekking með bókasafninu. Hundruð grískra leikrita og allar ritaðar heimildir um fyrstu 500 árin í sögu Grikklands voru horfin fyrir fullt og allt, ef frá eru talin verk eftir Heródótos, Þúkýdídes og Xenófon.

Á þriðju til sjöttu öld okkar tímatals voru tíðar óeirðir í Alexandríu. Hvað eftir annað börðust heiðingjar, Gyðingar og svokallaðir kristnir menn hver við annan og sín á milli út af trúarkenningum. Alloft hvatti kirkjan óeirðaseggi til að ræna heiðin musteri. Fjöldinn allur af fornum handritum glataðist fyrir vikið.

Endurheimt fornrar frægðar

Nýja bókasafnið var opnað í október 2002 og geymir um 400.000 bækur. Fullkomið tölvukerfi veitir aðgang að öðrum bókasöfnum. Safnið leggur megináherslu á siðmenninguna austan við Miðjarðarhaf. Bókasafnið í Alexandríu getur rúmað um 8 milljónir bóka og hefur því möguleika á auka virðingu þessarar fornu borgar.

[Rammi á blaðsíðu 22]

ÞEKKTIR MENN Í ALEXANDRÍU FORTÍÐAR

ARISTARKOS FRÁ SAMOS: Stjörnufræðingur á þriðju öld f.o.t. Setti fyrstur manna fram þá hugmynd að reikistjörnur gengju um sólina. Notaði hornafræði til að reyna að reikna út fjarlægðina til sólarinnar og tunglsins og stærð þeirra.

ARKIMEDES: Stærðfræðingur og uppfinningamaður á þriðju öld f.o.t. Honum eru eignaðar fjölmargar uppfinningar og hann fann nálgunargildi fyrir pí (π).

ERATOSÞENES: Fjölfræðingur og einn fyrsti bókavörðurinn í Alexandríu, uppi á þriðju öld f.o.t. Reiknaði ummál jarðarinnar svo að litlu skeikaði.

EVKLÍÐ: Stærðfræðingur á fjórðu öld f.o.t. Stundum nefndur faðir rúmfræðinnar og var brautryðjandi í rannsóknum á ljósfræði. Rit hans, Elementa, var notað til grundvallar rúmfræðinni fram á 19. öld.

GALENOS: Læknir á annarri öld e.o.t. Skrifaði 15 bækur um læknisfræði og voru þær grundvallarrit í um 12 aldir.

KALLÍMAKKOS: Ljóðskáld og yfirbókavörður á þriðju öld f.o.t. Skráði fyrstur manna bókakost safnsins í Alexandríu og er það grunnur að viðurkenndri skrá yfir klassískar grískar bókmenntir.

KLÁDÍUS PTÓLEMEOS: Stjörnufræðingur á annarri öld e.o.t. Rit hans um landafræði og stjörnufræði voru viðurkennd grundvallarrit.

[Mynd credit line á blaðsíðu 21]

Allar myndir á báðum blaðsíðum: Birtar með góðfúslegu leyfi Bibliotheca Alexandrina. Ljósmyndari: Mohamed Nafea.