Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 1

Guð byrjar að skapa

Guð byrjar að skapa

ALLT það góða, sem við höfum, kemur frá Guði. Hann skapaði sólina til að gefa okkur birtu á daginn og tunglið og stjörnurnar svo við hefðum einhverja birtu á nóttunni. Og Guð skapaði jörðina fyrir okkur til að búa á.

En sólin, tunglið, stjörnurnar og jörðin var ekki það fyrsta sem Guð bjó til. Veistu hvað var það fyrsta sem Guð skapaði? Það voru englarnir. Við getum ekki séð Guð og við getum ekki heldur séð englana. Guð skapaði englana til þess að þeir væru með honum á himnum.

Fyrsti engillinn, sem Guð skapaði, var mjög sérstakur. Hann var fyrsti sonur Guðs og hann vann með föður sínum. Hann hjálpaði Guði að skapa alla aðra hluti. Hann hjálpaði Guði að skapa sólina, tunglið, stjörnurnar og einnig jörðina okkar.

Hvernig leit jörðin út þá? Í byrjun gat enginn búið á henni. Þar var ekkert annað en stórt haf sem huldi alla jörðina. En Guð vildi að menn byggju á jörðinni. Þess vegna fór hann að undirbúa allt fyrir okkur. Hvað gerði hann þá?

Fyrst þurfti að fá birtu á jörðina. Guð lét þess vegna ljósið frá sólinni ná að skína til jarðarinnar. Hann gerði það þannig að dagur og nótt myndu skiptast á. Að því búnu lét Guð þurrlendi rísa upp yfir sjávarborðið.

Í fyrstu var landið alveg bert. Það var svipað því sem sést hér á myndinni. Þar voru hvorki blóm, tré né dýr. Það var ekki einu sinni fiskur í hafinu. Guð þurfti að gera miklu meira áður en jörðin væri orðin að þægilegum og fallegum bústað fyrir menn og skepnur.