Skiptir máli hvar og hvenær við förum með bæn?
ÞÚ HEFUR vafalaust tekið eftir því að flest trúarbrögð leggja áherslu á íburðarmikil bænahús og hafa ákveðinn tíma dagsins til bæna. Takmarkar Biblían bænir okkar við ákveðna staði og tíma?
Biblían sýnir að það er viðeigandi að fara með bæn við ákveðin tækifæri. Jesús þakkaði Guði í bæn áður en hann borðaði með fylgjendum sínum. (Lúkas 22:17) Og þegar lærisveinarnir söfnuðust saman til tilbeiðslu báðu þeir saman til Guðs. Þeir héldu áfram sið sem þeir höfðu viðhaft lengi í samkunduhúsum Gyðinga og í musterinu í Jerúsalem. Það var ætlun Guðs að musterið væri „bænahús fyrir allar þjóðir“. – Markús 11:17.
Þegar þjónar Guðs koma saman og fara með bæn geta bænir þeirra verið árangursríkar. Ef þeir eru sameinaðir í hugsun og bænir þeirra eru bornar fram í samræmi við meginreglur Biblíunnar er Guð ánægður. Bænin gæti jafnvel fengið hann til að gera það sem hann hefði annars ekki gert. (Hebreabréfið 13:18, 19) Vottar Jehóva biðja reglulega á samkomum sínum. Þú ert hjartanlega velkominn að koma í ríkissal í nágrenni þínu og hlusta á slíkar bænir.
Biblían takmarkar samt ekki bænir við ákveðinn tíma eða stað. Í Biblíunni getum við lesið um þjóna Guðs sem báðu til hans á mismunandi tímum og stöðum. Jesús sagði: „Þegar þú biður skaltu fara inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja til föður þíns sem er í leynum. Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér.“ – Matteus 6:6.
Við getum beðið hvenær og hvar sem er.
Þetta er hlýlegt boð. Þú getur í raun nálgast drottinvald alheimsins hvenær sem er í algeru næði og verið fullviss um athygli hans. Engin furða að Jesús sóttist oft eftir því að biðja til Guðs í einrúmi. Einu sinni var hann á bæn til Guðs í heila nótt og bað greinilega um leiðsögn til að taka mjög mikilvæga ákvörðun. – Lúkas 6:12, 13.
Biblían segir frá fleiri körlum og konum sem báðu til Guðs þegar þau stóðu frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum eða erfiðum aðstæðum. Stundum báðu þau upphátt og stundum í hljóði. Þau báðu með öðrum og þegar þau voru ein. Það sem skiptir mestu máli er að þau báðu til Guðs. Guð býður þjónum sínum: „Biðjið stöðugt.“ (1. Þessaloníkubréf 5:17) Hann er alltaf tilbúinn að hlusta á þá sem gera vilja hans. Kærleikur hans er augljós.
Í heimi þar sem ríkir tortryggni efast margir um að bænir komi að gagni. Þú veltir því kannski fyrir þér hvort bænin geti hjálpað þér?