Upprisa – hverjir fá hana og hvar?
20. kafli
Upprisa – hverjir fá hana og hvar?
1, 2. Hvernig vitum við að þjónar Guðs til forna trúðu á upprisu?
ÞJÓNAR GUÐS hafa alltaf trúað á upprisuna. Biblían segir um Abraham sem var uppi um 2000 árum fyrir fæðingu Krists: „Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja [Ísak son hans] upp frá dauðum.“ (Hebreabréfið 11:17-19) Síðar spurði þjónn Guðs, Job: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ Job svaraði sinni eigin spurningu og sagði við Guð: „Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ Með þessum orðum sýndi hann að hann trúði á upprisuna. — Jobsbók 14:14, 15.
2 Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sagði hann: „Að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,[Jehóva] Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.‘ Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.“ (Lúkas 20:37, 38) Orðið „upprisa“ kemur yfir 40 sinnum fyrir í kristnu Grísku ritningunum. Upprisa dauðra er ein af undirstöðukenningum Biblíunnar. — Hebreabréfið 6:1, 2.
3. Hvernig lét Marta í ljós trú á upprisuna?
3 Þegar vinur Jesú, Lasarus, dó lét Marta, systir hans, í ljós trú sína á upprisuna. Þegar hún heyrði að Jesús væri á leiðinni hljóp hún til móts við hann. „Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn,“ sagði hún. Þegar Jesús sá hversu sorgmædd hún var hughreysti hann hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta svaraði: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ — Jóhannes 11:17-24.
4-6. Hvaða ástæðu hafði Marta til að trúa á upprisuna?
4 Marta hafði ærna ástæðu til að trúa á upprisuna. Hún vissi til dæmis að mörgum árum áður höfðu spámenn Guðs, Elía og Elísa, hvor um sig vakið barn upp frá dauðum með krafti Guðs. (1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:32-37) Og hún vissi að látinn maður hafði lifnað við þegar honum var kastað í gröf og hann snerti bein Elísa sem var látinn. (2. Konungabók 13:20, 21) En það sem einkanlega hafði styrkt trú hennar á upprisuna var það sem Jesús hafði sjálfur kennt og gert.
5 Marta kann að hafa verið viðstödd í Jerúsalem tæplega tveim árum áður þegar Jesús talaði um hlutverk sitt í tengslum við upprisu dauðra. Hann sagði: „Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill. Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — Jóhannes 5:21, 28, 29.
6 Biblían getur þess ekki að Jesús hafi vakið nokkurn upp frá dauðum áður en hann mælti þessi orð. En skömmu síðar vakti hann upp ungan mann sem var sonur ekkju í borginni Nain. Fréttirnar af því bárust suður til Júdeu þar sem víst er að Marta heyrði þær. (Lúkas 7:11-17) Marta hlýtur líka að hafa heyrt síðar það sem gerðist við Galíleuvatn á heimili Jaírusar. Dóttir hans, sem var tólf ára, hafði tekið sótt mikla og dáið. Þegar Jesús kom á heimili Jaírusar gekk hann inn til látna barnsins og sagði: „Stúlka, rís upp!“ Og það gerði hún! — Lúkas 8:40-56.
7. Hvernig sannaði Jesús fyrir Mörtu að hann gæti reist upp dána?
7 Samt sem áður bjóst Marta ekki við að Jesús vekti bróður hennar upp frá dauðum þá. Þess vegna sagði hún: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Til að innprenta Mörtu hvílíku hlutverki Jesús gegndi í sambandi við upprisu dauðra sagði hann: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Síðan var farið með Jesú að gröfinni þar sem Lasarus hafði verið lagður til hinstu hvíldar. „Lasarus, kom út!“ hrópaði hann. Og Lasarus, sem hafði verið dáinn í fjóra daga, kom út! — Jóhannes 11:24-26, 38-44.
8. Hvað sannar að Jesús hafi verið reistur upp?
8 Fáeinum vikum síðar var Jesús sjálfur líflátinn og lagður í gröf. Hann lá þar þó aðeins einn dag og hluta úr tveimur. Pétur postuli útskýrir hvers vegna: „Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.“ Trúarleiðtogarnir gátu ekki hindrað að sonur Guðs kæmi út úr gröfinni. (Postulasagan 2:32; Matteus 27:62-66; 28:1-7) Enginn vafi getur leikið á að Kristur hafi verið reistur upp frá dauðum, því að eftir það sýndi hann sig mörgum af lærisveinunum, einu sinni 500 í einu. (1. Korintubréf 15:3-8) Lærisveinar Jesú trúðu svo óhagganlega á upprisu hans að þeir voru fúsir jafnvel til að deyja fyrir þjónustu sína við Guð.
9. Hvaða níu einstaklinga segir Biblían hafa verið reista upp?
9 Postularnir Pétur og Páll færðu frekari sönnur á það síðar að vekja megi dauða aftur upp til lífs. Fyrst reisti Pétur upp frá dauðum Tabíta, einnig kölluð Dorkas, í borginni Joppe. (Postulasagan 9:36-42) Þá vakti Páll til lífs hinn unga Evtýkus sem dó þegar hann datt út um glugga á þriðju hæð þar sem Páll var að halda ræðu. (Postulasagan 20:7-12) Þau níu dæmi um upprisu, sem Biblían greinir frá, sanna tvímælalaust að hægt er að endurlífga þá sem látist hafa!
HVERJIR VERÐA REISTIR UPP?
10, 11. (a) Hvers vegna greip Guð til upprisunnar? (b) Hvaða tveir hópar manna fá upprisu að sögn Postulasögunnar 24:15?
10 Í upphafi ætlaði Guð sér ekki að reisa nokkurn mann upp frá dauðum, því að enginn hefði þurft að deyja ef Adam og Eva hefðu verið Guði trú. En Adam syndgaði og leiddi ófullkomleika og dauða yfir alla menn. (Rómverjabréfið 5:12) Jehóva Guð greip þá til upprisunnar til að gefa afkomendum Adams kost á eilífu lífi. En hvað ræður því hvort menn fá upprisu eða ekki?
11 Biblían fullyrðir: ‚Upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ (Postulasagan 24:15) Sumum kann að þykja kynlegt að „ranglátir“ skuli lífgaðir við. Atvik, sem átti sér stað þegar Jesús hékk á kvalastaurnum, hjálpar okkur að skilja þetta mál.
12, 13. (a) Hverju lofaði Jesús afbrotamanni? (b) Hvar er sú „paradís“ sem Jesús talaði um?
12 Þessir menn við hlið Jesú eru afbrotamenn. Annar þeirra spottar hann og segir: „Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!“ En hinn afbrotamaðurinn trúir á Jesú, snýr sér að honum og segir: „Minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“ Þá gefur Jesús honum loforð: „Sannlega segi ég þér í dag: Þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:39-43, NW.
13 Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Þú skalt vera með mér í paradís“? Hvar er paradís? Hvar var sú paradís sem Guð skapaði í upphafi? Var hún ekki á jörðinni? Guð setti fyrstu mannlegu hjónin í fagra paradís sem kölluð var Edengarðurinn. Þegar við lesum að þessi fyrrum afbrotamaður verði í paradís ættum við að sjá fyrir okkur jörðina þegar búið er að breyta henni í fagran dvalarstað, því að orðið „paradís“ merkir „garður“ eða „lystigarður.“ — 1. Mósebók 2:8, 9.
14. Í hvaða skilningi verður Jesús með þessum fyrrverandi afbrotamanni í paradís?
14 Jesús Kristur verður vitanlega ekki hér á jörðinni með þessum fyrrverandi afbrotamanni. Hann verður konungur hinnar jarðnesku paradísar og ríkir af himnum ofan. Hann verður með manninum í þeim skilningi að hann vekur hann upp frá dauðum og fullnægir bæði líkamlegum og andlegum þörfum hans. En hvers vegna mun Jesús leyfa manni, sem hefur verið afbrotamaður, að lifa í paradís?
15. Hvers vegna verða „ranglátir“ reistir upp?
15 Þessi maður hafði vissulega gert sitthvað rangt. Hann var ‚ranglátur‘ og vissi ekkert um vilja Guðs. En hefði hann verið afbrotamaður ef hann hefði þekkt tilgang Guðs? Jesús reisir þennan rangláta mann upp frá dauðum til að fá úr því skorið, svo og þúsundir milljóna annarra manna sem dóu án þess að þekkja Guð. Á liðnum öldum hefur dáið fjöldi manna sem kunni ekki einu sinni að lesa og hafði aldrei séð biblíu. En þeir verða reistir upp frá séol eða helju, og í jarðneskri paradís verður þeim kenndur vilji Guðs og þeir fá tækifæri til að sanna að þeir elski Guð og vilji gera það sem honum er þóknanlegt.
16. (a) Hverjir fá ekki upprisu? (b) Hvers vegna ættum við ekki að reyna að dæma um hver fái upprisu? (c) Hverju ættum við að einbeita okkur að?
16 Með þessu er ekki verið að segja að allir fái upprisu. Biblían sýnir til dæmis að Júdas Ískaríot, sem sveik Jesú, verður ekki reistur upp. Hann er kallaður „sonur glötunarinnar“ vegna þess óhæfuverks sem hann framdi af ásettu ráði. (Jóhannes 17:12) Hann fór í hið táknræna Gehenna þaðan sem engin upprisa er. (Matteus 23:33) Þeir sem vísvitandi gera það sem er rangt, eftir að þeir kynnast Guði, geta gerst sekir um synd gegn heilögum anda, og Guð reisir ekki upp frá dauðum þá sem syndga gegn heilögum anda hans. (Matteus 12:32; Hebreabréfið 6:4-6; 10:26, 27) En Guð er dómarinn og engin ástæða fyrir okkur að reyna að finna út hvort ákveðnir, óguðlegir menn fortíðar eða nútíðar fái upprisu eða ekki. Guð veit hverjir hvíla í helju og hverjir í Gehenna. Fyrir okkur skiptir mestu máli að gera allt sem við getum til að vera þess konar menn sem Guð vill hafa í nýrri skipan sinni. — Lúkas 13:24, 29.
17. Hverjir munu ekki þurfa að fá upprisu til að hljóta eilíft líf?
17 Ekki munu allir, sem hljóta eilíft líf, þurfa að fá upprisu. Margir þjónar Guðs lifa nú á „síðustu dögum“ þessa heimskerfis og munu lifa út í gegnum Harmagedón. Þar verða þeir hluti hinnar réttlátu ‚nýju jarðar‘ og þurfa aldrei að deyja. Það sem Jesús sagði við Mörtu getur ræst bókstaflega á þeim: „Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ — Jóhannes 11:26; 2. Tímóteusarbréf 3:1.
18. Hverjir eru þeir ‚réttlátu‘ sem fá upprisu?
18 Hverjir eru þeir ‚réttlátu‘ sem fá upprisu? Í þeirra hópi hljóta að vera trúfastir þjónar Guðs sem voru uppi áður en Jesús Kristur kom til jarðar. Margir þeirra eru nefndir með nafni í 11. kafla Hebreabréfsins. Þeir vonuðust ekki eftir að fara til himna heldur að lifa aftur á jörðinni. Í hópi þeirra ‚réttlátu,‘ sem fá upprisu, eru líka trúfastir þjónar Guðs sem dáið hafa á síðustu árum. Guð mun sjá til þess að von þeirra um eilíft líf á jörðinni verði að veruleika þegar hann reisir þá upp frá dauðum.
HVENÆR OG HVAR UPPRISAN VERÐUR
19. (a) Í hvaða skilningi var Jesús fyrstur til að fá upprisu? (b) Hverjir eru reistir upp næst?
19 Sagt er um Jesú Krist að hann hafi ‚fyrstur risið upp frá dauðum.‘ (Postulasagan 26:23) Með því er átt við að hann hafi fyrstur manna verið reistur upp frá dauðum án þess að þurfa að deyja aftur. Auk þess var hann fyrstur manna reistur upp sem andavera. (1. Pétursbréf 3:18) En Biblían segir að fleiri komi á eftir: „Sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.“ (1. Korintubréf 15:20-23) Samkvæmt þessu áttu sumir að fá upprisu á undan öðrum.
20. (a) Hverjir eru það „sem Kristi tilheyra“? (b) Hvers konar upprisu fá þeir?
20 ‚Þeir sem Kristi tilheyra‘ eru þeir 144.000 trúfastir lærisveinar sem valdir eru til að stjórna með honum í ríki hans. Biblían segir um himneska upprisu þeirra: „Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir . . . ríkja með honum um þúsund ár.“ — Opinberunarbókin 20:6; 14:1, 3.
21. (a) Hvenær hefst ‚fyrri upprisan‘? (b) Hverjir hafa vafalaust þegar fengið upprisu til lífs á himnum?
21 Eftir að Kristur er risinn upp eru þær 144.000 næstar í röðinni. Þær eiga hlut í „fyrri upprisunni.“ (Filippíbréfið 3:11) Hvenær á hún sér stað? „Við komu hans“ eða nærveru, segir Biblían. Eins og við höfum lært í fyrri köflum þessarar bókar hófst nærvera Krists árið 1914. ‚Dagur‘ ‚fyrri upprisunnar‘ til himna er þegar runninn upp. Vafalaust hafa postularnir og aðrir frumkristnir menn þegar verið reistir upp til lífs á himnum. — 2. Tímóteusarbréf 4:8.
22. (a) Hverjir aðrir eiga hlut í „fyrri upprisunni“? (b) Hvenær fá þeir upprisu?
22 Einnig nú, meðan ósýnileg nærvera Krists stendur yfir, eru á lífi kristnir menn sem hafa þessa sömu von um að ríkja á himnum með Kristi. Af þeim eru aðeins fáir eftir, leifar hinna 144.000. Hvenær fá þeir upprisu? Þeir þurfa ekki að sofa dauðasvefni heldur fá upprisu jafnskjótt og þeir deyja. Biblían útskýrir: „Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa.“ — 1. Korintubréf 15:51, 52; 1. Þessaloníkubréf 4:15-17.
23. Hvernig lýsir Biblían umbreytingunni sem sumir fá til lífs sem andaverur?
23 Vitanlega er ‚fyrri upprisan‘ til lífs á himnum ósýnileg mannanna augum. Þeir sem reistir eru upp verða andaverur. Biblían lýsir þessari umbreytingu þannig: „Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt. Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. . . . Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami.“ — 1. Korintubréf 15:42-44.
24. (a) Hvaða upprisa kemur á eftir ‚fyrri upprisunni‘? (b) Hvers vegna er hún kölluð ‚betri upprisa‘?
24 Orðin ‚fyrri upprisan‘ fela samt sem áður í sér að önnur upprisa fylgi í kjölfarið. Það er upprisa til lífs í jarðneskri paradís, upprisan sem bæði réttlátir og ranglátir fá. Hún á sér stað eftir Harmagedón. Það verður ‚betri upprisa‘ en sú sem Elía, Elísa og aðrir menn fortíðarinnar gátu komið til leiðar. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem fá upprisu eftir Harmagedón munu aldrei þurfa að deyja aftur ef þeir kjósa að þjóna Guði. — Hebreabréfið 11:35.
KRAFTAVERK AF HENDI GUÐS
25. (a) Hvers vegna er sá líkami, sem dó, ekki reistur upp? (b) Hvað er reist upp og hvað er gefið þeim sem fá upprisu?
25 Hvað verður reist upp? Ekki sami líkaminn og dó. Biblían sýnir það þegar hún lýsir upprisunni til lífs á himnum. (1. Korintubréf 15:35-44) Meira að segja þeir sem reistir eru upp til að lifa á jörðinni fá ekki sama líkamann og þeir höfðu í fyrra lífi. Sá líkami er sennilega rotnaður og orðinn aftur að mold. Vera kann að aðrar lífverur hafi fengið frumefnin sem mynduðu hinn látna líkama. Guð reisir því ekki upp sama líkamann heldur sömu persónuna og dó. Þeim sem fara til himna gefur hann nýjan andlegan líkama; þeim sem hann vekur upp til að lifa á jörðinni gefur hann nýjan holdlegan líkama. Þessi nýi holdlegi líkami verður vafalaust líkur þeim sem einstaklingurinn hafði áður en hann dó, þannig að þeir sem þekktu hann munu þekkja hann aftur.
26. (a) Hvers vegna er upprisan stórfenglegt kraftaverk? (b) Hvaða uppfinningar mannanna hjálpa okkur að skilja að Guð getur munað eftir þeim sem dáið hafa?
26 Upprisan er sannarlega stórfenglegt kraftaverk. Sá sem deyr kann að hafa aflað sér mikillar reynslu og þekkingar og margra minninga á ævinni. Hann þroskaði með sér persónuleika sem gerði hann ólíkan öllum öðrum mönnum sem lifað hafa. Þó man Jehóva Guð hvert smáatriði og endurskapar persónuleika hans fullkomlega þegar hann reisir hann upp. Biblían segir um dána menn sem eiga að fá upprisu: „Því að honum lifa allir.“ (Lúkas 20:38) Menn geta fest raddir og myndir af mönnum á segulbönd, myndbönd eða filmur og leikið þær eða sýnt löngu eftir að þeir hinir sömu dóu. En Jehóva bæði getur og mun endurlífga alla menn sem lifa í minni hans!
27. Hvaða spurningum um upprisuna verður svarað síðar?
27 Biblían segir okkur margt fleira um lífið í paradís eftir að dánir hafa risið upp. Til dæmis talaði Jesús um að menn rísi upp, sumir „til lífsins“ en aðrir „til dómsins.“ (Jóhannes 5:29) Hvað átti hann við? Og verða „réttlátir,“ sem fá upprisu, í annarri aðstöðu en „ranglátir“? Við fáum svör við þessum spurningum með því að athuga dómsdaginn nánar.
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 167]
„Ég veit, að hann rís upp í upprisunni.“
Elía vakti son ekkju upp frá dauðum.
Elísa vakti barn upp frá dauðum.
Maður, sem snerti bein Elísa, lifnaði við.
[Myndir á blaðsíðu 168]
Fólk sem Jesús reisti upp:
Sonur ekkju í Nain
Lasarus
Dóttir Jaírusar
[Myndir á blaðsíðu 169]
Aðrir sem fengu upprisu:
Dorkas
Jesús sjálfur
Evtýkus
[Mynd á blaðsíðu 170]
Hvar er sú paradís sem Jesús hét illvirkjanum?